Lögreglan er að rannsaka hvort einhver hryðjuverkamaður hafi verið fyrirmynd mannanna tveggja sem sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa undirbúið hryðjuverk hér á landi.
Þetta sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi lögreglunnar fyrr í dag þegar hann var spurður út í málið.
„Það er hluti af því sem er verið að rannsaka,“ sagði Grímur.
Hann var áður spurður hvort lögreglan hefði fundið gögn sem bentu til þess að mennirnir tveir tengdust morðingjanum Anders Breivik eða öfgahópum.
Grímur sagði að ekki yrði upplýst á fundinum um gögnin sem lögreglan hefði fundið við rannsókn málsins. „Það hefur ekkert komið fram hjá okkur um að þeir tengist ákveðnum öfgasamtökum eða ákveðnum einstaklingum sem fyrir liggur að hafi gerst sekir um hryðjuverk,“ sagði hann.
Á fundinum hvatti Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara, almenning til að hafa samband við lögregluna, viti hann af heimatilbúnum, þrívíddarprentuðum vopnum í umferð.