Ríkið endurgreiði þrotabúi DV 40 milljónir

Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm héraðsdóms í málinu.
Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm héraðsdóms í málinu. mbl.is/Odd

Hæstirétt­ur Íslands hef­ur staðfest að rifta skuli greiðslu á skuld DV ehf. við ís­lenska ríkið, frá því í sept­em­ber 2017, upp á rúm­ar 40 millj­ón­ir króna. Íslenska ríkið þarf því að end­ur­greiða þrota­búi DV 40.339.542 krón­ur með drátt­ar­vöxt­um. Hafnað var kröfu um rift­un á 85 millj­óna króna skuld.

For­saga máls­ins er sú að í sept­em­ber 2017 gerði DV samn­ing við ís­lenska ríkið um greiðslu á skuld­um sín­um, gegn því að ekki yrði kraf­ist gjaldþrota­skipta eða gripið til annarra vanefnd­ar úrræða. Dag­inn eft­ir greiddi svo Press­an ehf. móður­fé­lag DV inn á skuld­ir DV hjá ís­lenska rík­inu.

Press­an greiddi skuld DV

Í sept­em­ber ári síðar lýsti þrota­bú DV yfir rift­un á ell­efu greiðslum op­in­berra gjalda DV til ís­lenska rík­is­ins, frá því í maí 2017 og fram í des­em­ber sama ár. Fall­ist var á að rifta níu greiðslum en hafnað rift­un tveggja greiðslna, upp á rúm­ar 40 millj­ón­ir króna og svo upp á rúm­ar 85 millj­ón­ir króna.

Taldi ís­lenska ríkið þær ekki rift­an­leg­ar þar sem þær hefðu verið greidd­ar af þriðja aðila, ann­ars veg­ar af Press­unni og hins veg­ar lög­manns­stofu. Kröfu­haf­ar hefði því ekki orðið fyr­ir tjóni af þeim sök­um.

Þrota­bú DV vís­ar hins veg­ar til þess að greiðslan hafi verið færð sem skuld DV ehf. við Press­una í bók­haldi. Síðar í sept­em­ber hafi DV svo greitt Press­unni sam­tals rúm­ar 40 millj­ón­ir  með þeim skýr­ing­um að um hafi verið að ræða end­ur­greiðslu vegna Toll­stjóra.

Skipti engu máli hvaða greiðslan kom

Hæstirétt­ur komst að þeirri niður­stöðu að fall­ast á niður­stöðu héraðsdóms að Press­an hafi lánað DV rúm­ar 40 millj­ón­ir króna til greiðslu á op­in­ber­um gjöld­um og að DV hafi end­ur­greitt stærst­an hluta þess láns.

Í dómn­um seg­ir að það geti engu máli skipt, við ákvörðun um rift­un greiðslunn­ar, að greiðslan hafi upp­haf­lega borist frá reikn­ingi Press­unn­ar. Við end­ur­greiðslu DV sex dög­um síðar hafi hand­bært fé rýrnað með til­heyr­andi áhrif­um á greiðslu­getu þess og jafn­ræði kröfu­hafa. Það séu því upp­fyllt skil­yrði um að greiðslunni verði rift.

Hæstirétt­ur staðfesti jafn­framt þá niður­stöðu að ís­lenska rík­inu verði gert að end­ur­greiða þrota­búi DV „fé sem svar­ar til þess sem greiða þrota­manns­ins hef­ur orðið hon­um að not­um, þó ekki hærri en fjár­hæð sem nem­ur tjóni þrota­bús­ins.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert