Bjarni Frímann Bjarnason tónlistarmaður segir fyrrverandi tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa brotið á sér kynferðislega. Hann segist hafa greint stjórnendum hljómsveitarinnar frá brotinu en að málinu hafi verið stungið undir stól. Þessu greindi hann frá í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.
Hann segir brotið hafa átt sér stað á heimili Árna Heimis Ingólfssonar, fyrrverandi tónlistarstjóra SÍ, þegar Bjarni var nemandi hans í Listaháskóla Íslands. Bjarni hafi þá verið 17 ára gamall og Árni 35 ára.
Bjarni segist hafa greint þáverandi framkvæmdastjóra SÍ, Örnu Kristínu Einarsdóttur, frá kynferðisofbeldinu, en að hún hafi stungið málinu undir stól. Þá hafi hann einnig sagt Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, núverandi framkvæmdastjóra, og Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra, frá málinu en að þær hafi heldur ekkert aðhafst.
Hann segist einnig vita til þess að stjórn SÍ hafi vitað af málinu og að þrátt fyrir vitneskju allra þessara einstaklinga hafi Bjarni þurft að starfa áfram með Árna.
Árni hefur tjáð sig um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hann segist vera að vinna í sjálfum sér.
„Eins og sum ykkar vita hef ég undanfarin tvö ár verið í mikilli sjálfsvinnu. Þegar mér varð ljóst að ég hefði farið yfir mörk annarra án þess að gera mér grein fyrir því var augljóst í mínum huga að ég þyrfti að taka sjálfan mig í gegn. Það hefur sannarlega ekki verið auðvelt,“ skrifar Árni.
„Þá sem ég hef hegðað mér ósæmilega gegn bið ég afsökunar af djúpri einlægni og auðmýkt. Þau skref sem ég hef gengið síðustu tvö ár eru vonandi sönnun þess að ég tek málið alvarlega, og ég er staðráðinn í því að halda áfram að vinna í sjálfum mér. Ég hef afskaplega góðan sálfræðing og aðra sérfræðinga mér við hlið sem hafa leitt mig gegnum hvert skrefið af öðru og munu gera það áfram.“