Slökkviliðið að störfum langt fram eftir morgni

Ekkert er eftir inni í húshlutanum sem brann og er …
Ekkert er eftir inni í húshlutanum sem brann og er tjónið mikið. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Slökkviliðið á Austurlandi hafði í nógu að snúast við að hemja eldinn sem braust út í atvinnuhúsnæði Vasks á Egilsstöðum í gær og var við störf langt fram eftir morgni. Slökkviliðið lauk störfum í morgun og afhenti lögreglu vettvanginn eftir um það bil 14 klukkustunda vinnu.

„Þegar við vorum búnir að gera allt sem við gátum gert þá afhentum við lögreglu vettvanginn. Lögreglan tekur nú við og rannsakar orsakir brunans í dag,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi, í samtali við mbl.is.

Mikið tjón

Atvinnuhúsnæðið hýsti bæði efnalaug og verslun sem seldi alls kyns vörur og fatnað og því var eldsmaturinn mikill. Aðspurður um hvort það hafi spilað inn í hversu hratt eldurinn breiddist út segir Haraldur að ómögulegt sé að segja til um það.

„Við vorum komnir á vettvang um 5-6 mínútum eftir að við fengum útkallið en eldurinn breiddist afar hratt út. Það er ekkert inni í húshlutanum sem brann sem er eftir og er tjónið mikið.“

Eldurinn breiddist afar hratt út en slökkviliðið var komið á …
Eldurinn breiddist afar hratt út en slökkviliðið var komið á vettvang 5-6 mínútum eftir að útkallið barst. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka