Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Sorgarmiðstöðinni styrk að upphæð fimm milljónum króna.
Í tilkynningu Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins segir að styrkurinn sé veittur til almennrar starfsemi Sorgarmiðstöðvarinnar sem felst meðal annars í þjónustu og stuðningi við syrgjendur í sorgarúrvinnslu. Slík sorgarúrvinnsla miðar að því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi.
Sorgarmiðstöðin er öllum opin og hefur verið starfrækt frá árinu 2019. Að baki hennar lá sú hugmynd að syrgjendur og aðstandendur þeirra gætu gengið að upplýsingum og þjónustu á einum stað, með símtali, heimsókn eða á vefsíðu.
„Þjónusta Sorgarmiðstöðvarinnar er ómetanleg jafnt fyrir syrgjendur og aðstandendur þeirra enda fylgir því að missa fólkið sitt sorg og erfiðar tilfinningar. Það er því afar gagnlegt að geta leitað á einn stað með öll þau fjölmörgu atriði sem upp kunna að koma við sorgarúrvinnslu,” sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, meðal annars við veitingu styrksins.
Þá var Ína Ólöf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvarinnar, afar ánægð með styrkinn og sagði hann gefa tækifæri á því að halda áfram því góða starfi sem unnið er í Sorgarmistöð og bæta þjónustuna enn frekar fyrir syrgjendur á Íslandi.