Stærstur hluti skotvopnanna löglega skráður

Blaðamannafundur vegna hryðjuverkarannsóknar. Munir sem lögreglan lagði hald á.
Blaðamannafundur vegna hryðjuverkarannsóknar. Munir sem lögreglan lagði hald á. mbl.is/Hólmfríður María

Stærst­ur hluti þeirra skot­vopna sem fund­ust í aðgerðum lög­regl­unn­ar vegna rann­sókn­ar á meint­um und­ir­bún­ingi hryðju­verka hér á landi voru verk­smiðju­fram­leidd­ar byss­ur og voru jafn­framt lög­lega skráðar. Þetta var meðal þess sem kom fram á upp­lýs­inga­fundi vegna máls­ins.

Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, ít­rekaði á fund­in­um það sem áður hafði komið fram að tug­ir skot­vopna hefðu fund­ist í aðgerðunum. Þá hefðu sum vopn­anna verið hlaðin.

Mikið hef­ur verið rætt um að hluti vopn­anna hafi verið þrívídd­ar­prentuð, en Grím­ur sagði að í raun væru aðeins örfá þeirra skot­vopna sem hefðu verið hald­lögð slík vopn. Meiri­hlut­inn væri verk­smiðju­fram­leidd vopn, en mörg­um þeirra hefði verið breytt þannig að byss­urn­ar væru hálf­sjálf­virk­ar. Þá hefði lög­regl­an einnig lagt hald á hljóðdeyfa, hnífa og sveðjur.

Meðal muna sem lögreglan lagði hald á.
Meðal muna sem lög­regl­an lagði hald á. mbl.is/​Hólm­fríður María

Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti héraðssak­sókn­ara,  sagði á fund­in­um að ekki væri ef­ast um að hægt væri að fram­leiða hættu­leg vopn með þrívídd­ar­tækni og að meðal verk­efna lög­regl­unn­ar væri að finna út það magn íhluta sem hefðu verið prentaðir út í prent­ur­un­um. Sagði hann að að hluta væru byss­urn­ar þrívídd­ar­prentaðar og að hluta hef­ur verið notaðir í þær verk­smiðju­fram­leidd­ir íhlut­ir.

Spurður hvort búið væri að sann­reyna að um raun­veru­leg skot­vopn væri að ræða sem virkuðu sagði Grím­ur að lög­regl­an hefði ekki enn prófað þau. Á hinn bóg­inn hefði lög­regl­an rök­studd­an grun um að þau virkuðu. Hins veg­ar væru þessi vopn ekki prófuð á sama hátt og hefðbund­in skot­vopn, held­ur þyrfti að gæta meiri varúðar.

Hægt er að sjá upp­töku af fund­in­um hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert