Varð hol að innan eftir föðurmissinn

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 3:19
Loaded: 0%
Stream Type LIVE
Remaining Time 3:19
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
  • default, selected

Ingi­björg Linn­et Kristjáns­dótt­ir, eða Inga Kristjáns, rit­höf­und­ur og stjórn­andi hlaðvarps­ins Ill­verk, opnaði sig um al­var­leg­an kvíða og þung­lyndi sem hún glímdi við í kjöl­far þess að faðir henn­ar greind­ist með ill­vígt krabba­mein sem leiddi hann til dauða, í viðtali í Dag­mál­um í vik­unni. Hún hvet­ur fólk til að leita sér hjálp­ar sem fyrst við and­leg­um veik­ind­um en sjálf tók hún lang­an tíma í að stíga skrefið og fá hjálp. Hún reyndi að fylla hol­rúmið sem hún fann innra með sér með ýms­um öðrum leiðum, meðal ann­ars með því að kom­ast í besta form lífs síns. 

Setti sig í hetjugír

„Hann vesl­ast upp af þess­um sjúk­dómi. Þessi tími tætti allt niður sem ég nokk­urn tím­ann stóð fyr­ir. Þetta gerði mig bara hola að inn­an. Ég var bara ekki neitt. Ég vaknaði á dag­inn, gerði það sem ég þurfti að gera. Allt mitt, all­ir mín­ir draum­ar, all­ar mín­ar pæl­ing­ar fóru bara til hliðar,“ lýsti Inga sem vildi vera til staðar fyr­ir móður sína, sem nú var ekkja og yngri bróður sinn. 

„Ég setti mig í hetjugír og hélt bara áfram og bældi niður allt sem ég var að upp­lifa í svona þrjú ár,“ sagði Inga sem gaf sér nán­ast eng­an tíma til að syrgja föður sinn.

„Ég hélt ég myndi upp­lifa ham­ingju ef ég liti vel út“

Hún leitaði í ýmsa þrá­hyggju á þess­um tíma, meðal ann­ars í mikla lík­ams­rækt og áherslu á út­lit.

„Ég mætti [í rækt­ina] alla daga vik­unn­ar klukk­an sex, oft tvisvar í dag og komst í besta form lífs míns en ég var samt svo hol að inn­an og óham­ingju­söm. Ég var bara ha? Ég hélt að ég myndi upp­lifa ham­ingju ef ég liti vel út,“ sagði Inga. 

„Þú ert ekk­ert ef haus­inn er ekki í lagi“

 „Þá var það nátt­úr­lega bara haus­inn. Ég fattaði að ég er ekk­ert búin að vinna í mér. Þótt ég sé búin að vinna í lík­am­an­um, þótt ég sé búin að vera dug­leg að vinna, safna pen­ing og gera alls kon­ar þá var ég ekki búin að næra mig – sem er svo mik­il­vægt. Þú ert ekk­ert ef haus­inn er ekki í lagi. Þá leitaði ég mér aðstoðar,“ sagði Inga sem var greind með geðhvarfa­sýki, þrá­hyggjurösk­un, þung­lyndi, kvíða og mikla áfall­a­streitu þegar hún gekk inn til sál­fræðings sem hef­ur hjálpað henni að leysa úr öll­um „stífl­um“ lífs­ins, skilja það hver hún er og elta drauma sína. 

Viðtalið við Ingu má sjá í heild sinni með því að smella hér: 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert