Vök Baths býður viðbragðsaðilum á Austurlandi frían aðgang ofan í til slökunar frá og með deginum í dag og út helgina. Þetta á við um slökkvilið, lögreglu, björgunarsveitir og starfsfólk Rauða krossins þar sem þeir hafa staðið í ströngu seinustu daga.
Vök Baths er við Urriðavatn og í aðeins nokkurra mínútna fjarlægð frá Egilsstöðum og vill því leggja sitt af mörkum til samfélagsins eftir gærdaginn þegar eldur kviknaði í verslun og þvottahúsi Vasks á Egilsstöðum.
Viðbragðsaðilar eru beðnir um að framvísa skilríkjum við komu og fá við það frían aðgang í Vök Baths.