Ætla ekki að stíga til hliðar

Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir og oddviti flokksins á Akureyri, og Jón …
Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir og oddviti flokksins á Akureyri, og Jón Hjaltason, sagnfræðingur sem skipar þriðja sæti listans. Samsett mynd

Brynjólfur Ingvarsson, oddviti Flokks fólksins á Akureyri, ætlar ekki stíga til hliðar úr bæjarstjórn Akureyrar þrátt fyrir eindregna ósk stjórnar flokksins. Jón Hjaltason varabæjarfulltrúi ætlar sömuleiðis að halda áfram nefndarstörfum.

Þetta staðfesta þeir í samtali við mbl.is.

Stjórn Flokks fólksins greindi frá því gær í yfirlýsingu að þeir Brynjólfur og Jón, sem skipaði þriðja sæti lista Flokks fólksins á Akureyri, hefðu báðir sagt sig úr flokknum. Í kjölfarið hafi þeir fengið bréf þar sem var óskað eftir því að þeir stigu til hliðar svo aðrir fulltrúar flokksins gætu sinnt skyldum sínum gagnvart kjósendum og gætt hagsmuna þeirra.

„Makalaust“ hvernig forystan vó að þeim

Spurður um ástæður úrsagnarinnar svarar Jón að honum hafi þótt makalaust hvernig forystan, formaðurinn Inga Sæland og varaformaðurinn Guðmundur Ingi, hafi vegið með þessum hætti að flokksmönnum.

„Að það skuli ekki vera neinir minnstu tilburðir af þeirra hálfu til þess að leysa málið eða einhvern veginn að komast að sannleikanum í málinu. Þeirra framkoma öll gekk gjörsamlega fram af mér. Hvernig þessar konur hafa fengið að vaða uppi með ósannindi og rakalausar fullyrðingar, þetta var bara gjörsamlega eitthvað sem kom mér á óvart og var ekki viðbúið. Þetta var óþolandi framkoma í einu orði sagt.“

Brynjólfur vildi ekki tjá sig frekar um ástæður úrsagnar sinnar.

Jón segir í samtali við mbl.is að hann hafi svarað bréfinu, þar sem hann var beðinn um að stíga til hliðar, og sagt að hann væri reiðubúinn að ræða þetta mál ef Mál­fríður Þórðardótt­ir, Tinna Guðmunds­dótt­ir og Hann­esína Scheving Vir­gild Chester, sem skipuðu 2., 4., og 5., sæti lista Flokks fólksins á Akureyri myndu draga til baka ásakanirnar og biðjast afsökunar á „afskaplegra óheiðarlegri“ framkomu gagnvart þeim Brynjólfi.

í yfirlýsingu sem konurnar þrjár sendu frá sér 13. september segir að þær hafi sí­fellt verið lít­ilsvirt­ar og hunsaðar af karl­kyns for­ystu flokks­ins og aðstoðarmönn­um henn­ar. 

„Sum­ar okk­ar máttu sæta kyn­ferðis­legu áreiti og virki­lega óviðeig­andi fram­komu til viðbót­ar við að vera sagðar ekki starf­inu vaxn­ar og geðveik­ar,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.

Dugi ekki að ásakanir beinist ekki að þeim

Aðspurður segir Jón það ekki duga til að í yfirlýsingu stjórnar flokksins hafi komið fram að ásakanir um kynferðislegt áreiti beinist ekki að honum og Brynjólfi heldur einungis að Hjörleifi Hallgríms Herbertssyni sem skipaði 22. sæti lista Flokks fólksins á Akureyri.

Jón segir konurnar ekki átta sig á alvarleika málsins, að þær hafi sakað þá um afskaplega gróft einelti.

„Það er eitthvað það versta þú getur sagt um nokkurn mann að hann sé eineltari og kvikindi og mannhatari. Þær átta sig bara ekkert á því hvað þær eru að segja í raun og veru þegar þær segja að við höfum beitt þær þessu ofbeldi, þessari ofbeldisfullu framkomu eins og þær orða það,“ segir Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert