Spáð er 6 til 13 stiga hita víðast hvar á landinu í dag. Eða eins og segir í hugleiðingum Veðurfræðings á Veðurstofu Íslands þá verður hitinn „hvorki áberandi mikill eða lítill“.
Þá stefnir í austlæga átt í dag með vætu um allt land en mun þó stytta upp suðvestan til. Víðast hvar verður skaplegur vindur 5-13 m/s. Á Vestfjörðum verður aftur á móti allhvöss norðaustan átt 13-18 m/s.
Segir í spánni að seinni partinn bæti í úrkomuna á Austurlandi og stefnir þá í talsverða rigningu fram á nótt, einkum á Austfjörðum. Á norðanverðu landinu mun einnig bæta í rigninguna og mögulega mun einnig dropa á suðvesturhorninu í kvöld.
Á morgun er því svo spáð að dagurinn byrji með stífri norðaustan- og norðanátt og vætu fyrir norðan en að það dragi úr vindi þegar líður á daginn.