Mygla í nýbyggingu Vogaskóla

Frá Vogaskóla.
Frá Vogaskóla. Ljósmynd/Vogaskóli

Mygla hef­ur komið í ljós á kennslu­svæðum í Voga­skóla á ann­arri hæð í ný­bygg­ingu skól­ans sem og á skrif­stof­um á jarðhæð. Þetta mun hafa áhrif á skóla­starfið en búið er að óska eft­ir al­hliða út­tekt á öllu skóla­hús­næðinu og loftræsti­kerfi húss­ins í kjöl­far þess­ara fregna.

Þetta kem­ur fram í tölvu­pósti frá skóla­stjóra Voga­skóla til for­eldra nem­enda.

Þar seg­ir að í lok ág­úst hafi verið farið fram á að ákveðinn hluti af hús­næði skól­ans yrði skoðaður sér­stak­lega með til­liti til gæða inni­vist­ar. Í vik­unni hafi borist frum­skýrsla með niður­stöðum þar sem m.a. kem­ur fram að mygla hafi fund­ist á kennslu­svæðum nem­enda í 4. og 5. bekk.

Leita eft­ir hús­næði

„Virkjaður hef­ur verið nýr verk­fer­ill Reykja­vík­ur­borg­ar um raka­skemmd­ir og myglu. Ég hef fundað með aðilum frá Reykja­vík­ur­borg og verk­fræðistof­un­um Eflu og Verk­sýn. Verið er að vinna ver­káætl­un sem miðar að því að rýma þessi svæði og ráðast í viðgerðir. Einnig er verið að leita eft­ir hús­næði sem hægt er að nýta fyr­ir skóla­starfið á meðan á viðgerðum stend­ur,“ seg­ir í póst­in­um frá Snæ­dísi Vals­dótt­ur skóla­stjóra.

„Formaður for­eldra­fé­lags Voga­skóla hef­ur verið upp­lýst­ur um málið og fundað verður með skólaráði á mánu­dag­inn.“

Biðla til for­eldra að sýna þol­in­mæði

Í póst­in­um seg­ir Snæ­dís að þetta muni aug­ljós­lega hafa áhrif á skólastarf en að all­ar ákv­arðanir og áætlan­ir verði gerðar með hags­muni nem­enda að leiðarljósi. 

„Við biðlum til ykk­ar, kæru for­eldr­ar, um góða sam­vinnu, til­lits­semi og þol­in­mæði í þessu verk­efni sem fram und­an er,“ seg­ir í póst­in­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert