Útför Hrafns Jökulssonar, rithöfundar og blaðamanns, var gerð frá Hallgrímskirkju að viðstöddu miklu fjölmenni í dag.
Hrafn kaus að nefna útförina sólför og hafði beðið fólk um að mæta í klæðnaði sem ekki væri svartur.
Séra Bjarni Karlsson jarðsöng en líkmenn voru Þórhildur Helga Hrafnsdóttir, Sigurlaug Jónsdóttir (Didda), Kristjón Kormákur Guðjónsson, Þórarinn Þórarinsson, Róbert Lagerman, Þorsteinn Máni Hrafnsson, Örnólfur Hrafnsson, Árni H. Kristjánsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Kolbrá Höskuldsdóttir.
Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir sellóleikari opnaði athöfnina. Þá sungu Ragnheiður Gröndal og Valdimar Guðmundsson, og Guðmundur Pétursson gítarleikari og Davíð Þór Jónsson píanóleikari sáu um undirspil.
Fjölmargir minntust Hrafns í dag í minningargreinum í Morgunblaðinu en hann lést þann 17. september síðastliðinn eftir skamma baráttu við krabbamein í hálsi.
Össur Skarphéðinsson flutti ræðu við útförina og gerir henni skil hér að neðan. Á eftir fylgja fleiri myndir frá athöfninni.