Mikið álag er nú á Landspítalanum, þá sérstaklega á bráðamóttöku Fossvogi, og getur reynst nauðsynlegt að forgangsraða eftir bráðleika og vísa fólki annað ef mögulegt er, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.
„Fólk sem leitar á bráðamóttökuna í Fossvogi vegna vægari slysa eða veikinda getur búist við langri bið eftir þjónustu og ætti þess vegna að reyna að leita annað,“ segir í tilkynningunni.
Vegna vægari slysa eða veikinda er fólki bent á að leita á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, einkareknar heilsugæslustöðvar og kvöld- og helgarvakt læknavaktarinnar.
Þá er bent á að hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn í síma 1770 og 1700 og sinna faglegri símaráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu um allt land.