Landsbankinn stefnir að því að flytja í nýtt tíu þúsund fermetra húsnæði í Austurbakka við hlið Hörpu í miðbæ Reykjavíkur í lok þessa árs.
Þetta segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, í samtali við mbl.is.
Sagt var frá því í tilkynningu frá Stjórnarráðinu í gær að ríkið hefði samið um kaup á Norðurhúsi við Austurbakka af Landsbankanum. Húsnæðið sem ríkið samdi um er um það bil sex þúsund fermetrar.
Til stendur að nýta það undir starfsemi utanríkisráðuneytisins og sýningar- og menningartengda starfsemi Listasafns Íslands. Þá hefur ríkið lýst yfir vilja til að ganga til samninga um kaup á gamla Landsbankahúsinu að Austurstræti 11.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við Norðurhús verði lokið á árinu 2023 og að þá muni um 700-800 manns starfa í öllu húsinu.
Hér að neðan er sýnt hvar Landsbankinn verður til húsa annars vegar og utanríkisráðuneytið og sýningar- og menningartengda starfsemi Listasafns Íslands hins vegar.
Skrifstofur Landsbankans verða í Suðurhúsinu næst Geirsgötu og utanríkisráðuneytið verður í Norðurhúsinu.
„Við munum nota tíu þúsund fermetra, ríkið sex þúsund og svo eru um sex hundrað fermetrar sem ætlaðir eru í verslun eða þjónustu á þessu svæði,“ segir Rúnar.