Reykjavik Recording Orchestra (RRO) hefur nýlega lokið framleiðslu á tónlist Hans Zimmer fyrir Frozen Planet 2 á vegum BBC og David Attenborough. Þáttaröðin var frumsýnd fyrir skemmstu og hefur fengið góða dóma.
Upptökur fóru fram í Hörpu en kór tók einnig þátt í upptökunum. Það verður að teljast athyglisvert að RRO, sem er nýlega stofnuð upptökusveit, skuli hafa verið fengin til verksins. Ólafur Karlsson, framkvæmdastjóri RRO, segir í samtali við Morgunblaðið að sveitin hafi verið sett á stofn í nóvember í fyrra en hafði þá verið í undirbúningi í eitt og hálft ár. „Við settum okkur strax það markmið að verða eins góðir og við gætum. Bergur Þórisson, sem hefur verið tónlistarstjóri Bjarkar, sá um að velja allan búnað og við getum státað af öllu því besta sem fólk getur keypt í upptökutækjum í dag. Því fæst eins góður hljómur og mögulegt er í upptökurnar hér.“
RRO hefur á þessu ári einnig unnið að verkefnum fyrir Apple TV, Netflix, Amazon, Decca og Deutsche Grammophon auk til að mynda íslensku kvikmyndarinnar Svars við bréfi Helgu.
Ólafur segir við Morgunblaðið að fleiri áhugaverð erlend verkefni séu á teikniborðinu.
„Við leggjum mikla áherslu á að allir þættir framleiðslunnar séu í sama gæðaflokki og hjá stóru hljóðverunum í London og Los Angeles,“ segir Ólafur.
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.