Icelandair fékk leyfi frá lögreglunni í Bretlandi um sexleytið í gær, til að losa farangur úr flugvél félagsins sem vél Korean Air rakst utan í á Heathrow-flugvelli í fyrradag.
Hliðarstél Icelandair-vélarinnar skemmdist við áreksturinn. Vélin er nú laus úr vörslu lögreglu og Icelandair hefur fengið hana afhenta, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair.
„Farangurinn er kominn í bíla. Það er búið að flokka hann og finna aðsetur farþega. Það er verið að keyra hann út á London-svæðinu og vonast er til að allir fái farangurinn sinn í dag,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.
Byrjað er að skoða skemmdir sem urðu á vélinni og meta þær, en að sögn Guðna þarf að fá varahluti og skipta um þann hluta stélsins sem skemmdist.
Allt líti út fyrir að aðeins hafi orðið skemmdir á stélinu, en það verði þó kannað frekar þegar viðgerð hefst.
Gert verður við vélina í London og flugvirki á vegum Icelandair er kominn út til þess að sinna viðgerð. „Við fáum aðgang að skýli þarna úti a Heathrow og hún verður lagfærð þar,“ segir Guðni.