Árni Þórður, sonur Sigga storms, er útskrifaður af Landspítala eftir tæplega árslanga dvöl vegna líffærabilunar. Árni veiktist mjög alvarlega í desember á síðasta ári og var strax settur í öndunarvél á gjörgæslu.
Fréttablaðið greinir frá en í frétt miðilsins er haft eftir Sigurði Þ. Ragnarssyni, sem einnig er þekktur sem Siggi stormur, að sonur hans hafi fengið læknabréf á fimmtudaginn þar sem hann var útskrifaður. Nú tekur við eftirfylgni og eftirlit hjá Árna sem varð 30 ára í síðasta mánuði.
Siggi hefur verið duglegur að deila frá veikindum sonar síns og hefur m.a. komið fram í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar.
„Þetta er hræðileg lífsreynsla og ég gleymi þessu aldrei. Ég var staddur í útlöndum þegar það hringir í mig kona frá gjörgæsludeildinni og segir mér að drengurinn minn sé kominn í öndunarvél, sé í lífshættu og staðan sé alvarleg,“ sagði Sigurður í hlaðvarpinu um veikindi sonar síns.
„Við hjónin áttum flug nokkrum dögum síðar, en keyptum miða daginn eftir og komum. Svo byrjar tími sem er þannig að fyrst tekur maður þetta allt á hnefanum og er bara í sjokki. Það er stanslaus kvíði í maganum, en síðan gerist það að þegar áfallið fer að lengjast þá tærist maður smám saman að innan og maður fer að endurhugsa allt varðandi lífið. Það sem manni fannst merkilegt áður skiptir mann nánast engu máli í dag. Hver einasti dagur snýst meira og minna um það hvaða fréttir maður muni fá í dag.“