Lægð er yfir norðanverðu landinu og snýst vindur rangsælis í kringum miðjuna. Verður þannig norðaustanátt á vestfjörðum, norðvestanátt á sunnanverðu landinu og austanátt austantil, samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar.
Úrkomukerfið snýst sömuleiðis lægðarmiðjuna og því er vætusamt í öllum landshlutum en mesta úrkoman er liðin hjá á Austfjörðum.
Lægðin grynnist smám saman í dag og færist loks norður, í kjölfar hennar verður suðvestan og vestanátt á landinu á morgun, 8-15 m/s víða og skúrir vestanlands en úrkomulítið fyrir austan.
Hlýr loftmassi fylgir lægðinni og má því búast við allt að 11 stiga hita í dag en allt að 14 stigum á morgun.
Eftir helgi er útlit fyrir áframhaldandi lægðagang með vætusömu veðri, en þó rofar heldur til á miðvikudag.