Reyna aftur að fá styttu af Ye í Vesturbæ

Spurning er hvort Vesturbæingar fá hugmynd sína í gegn.
Spurning er hvort Vesturbæingar fá hugmynd sína í gegn.

Vesturbæingar hafa ekki gefið upp vonina um að fá reista styttu af bandaríska tónlistarmanninum Ye (áður Kanye West) í hverfið. Hefur tillaga þess efnis verið lögð fram í annað sinn í hugmyndasöfnunina Hverfið mitt sem er á vegum Reykjavíkurborgar.

Hugmyndasöfnunin stendur nú yfir og er hægt að senda inn hugmyndir til og með 27. október. Markmið verkefnisins er að fá hugmyndir frá borgarbúum um hvað megi bæta í þeirra hverfi. Vel á sjötta hundrað hugmyndir hafa verið sendar inn, sem er um 55% aukning frá sama tíma í síðustu hugmyndasöfnun. 

Á meðan söfnuninni stendur geta íbúar einnig sett læk við þær hugmyndir sem þeir vilja sjá verða að veruleika. Þær fimmtán hugmyndir sem fá flest læk í hverju hverfi, og eru samþykktar af fagráði borgarinnar, auk tíu hugmynda sem valdar eru af íbúaráði hvers hverfis verða til kosningar á næsta ári. Vinsælasta hugmynd hvers hverfis verður svo framkvæmd af borginni.

Vesturbæingar vilja styttu af tónlistarmanninum Ye.
Vesturbæingar vilja styttu af tónlistarmanninum Ye. Ljósmynd/McNay

Hugmyndinni hafnað síðast

Meðal þeirra hugmynda sem hafa verið sendar inn í ár er að stytta af tónlistarmanninum Ye verði reist í Vesturbæ. Hugmyndin var fyrst lögð fram árið 2020 og er það tónlistarmaðurinn Aron Kristinn Jónasson sem á heiðurinn af hugmyndinni, bæði þá og nú.

Fag­teymi sér­fræðinga verk­efn­is­ins Hverfið mitt kom­st á sínum tíma að þeirri niður­stöðu að hugmyndin væri ekki tæk til kosn­ing­ar. Meðal ástæðna teymisins voru að sér­stök tengsl Ye við Vest­ur­bæ væru lít­il sem eng­in og fælust aðeins í nafn­inu West, en eins og áður segir hét Ye áður Kanye West.

Vilja ekki hafna hugmyndum

Hugmyndin um styttu af Ye hefur nú hlotið flest læk allra hugmynda sem hafa verið sendar inn og varða Vesturbæinn. Verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg segir ekki hægt að segja til um hvort að hugmyndinni verði aftur hafnað af borginni.

„Ég get engu svarað fyrr en að fagráðið fer að funda og fara yfir allar hugmyndirnar. Auðvitað gerum við alltaf það sem við getum til að samþykkja hugmyndir. Við viljum ekki hafna hugmyndum,“ segir Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, í samtali við mbl.is.

Eiríkur Búi er í forsvari fyrir verkefnið Hverfið mitt hjá …
Eiríkur Búi er í forsvari fyrir verkefnið Hverfið mitt hjá Reykjavíkurborg. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Þetta er í tíunda sinn sem hugmyndasöfnunin Hverfið mitt fer fram. Síðan verkefnið hófst árið 2012 hafa 898 hugmyndir orðið að veruleika. Má þar nefna minigolf-velli, sjósundsaðstaða, útiæfingasvæði, klifursteina, litla almenningsgarða, blóm og gróður, listaverk og leiktæki svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert