Segir Strætó hafa notið góðs af niðurgreiðslum

Strætó fékk um 900 milljónir frá ríkinu í fyrra.
Strætó fékk um 900 milljónir frá ríkinu í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Jó­hann­es Svavar Rún­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó, seg­ir Strætó hafa notið góðs af niður­greiðslum rík­is­ins á raf­bíl­um vegna þess að virðis­auka­skatt­ur á raf­vögn­um hafi þá einnig verið end­ur­greidd­ur til byggðasam­lags­ins.

mbl.is fjallaði um það í gær að ríkið hefði varið níu millj­örðum í niður­greiðslur á raf- og tvinn­bíl­um á síðasta ári en aðeins stutt Strætó um tæp­an millj­arð.

„Við höf­um þannig notið góðs af þess­um níu millj­örðum. Við erum með fimmtán raf­vagna í um­ferð og eig­um von á tíu á næsta ári,“ seg­ir Jó­hann­es í sam­tali við mbl.is, spurður út í um­fjöll­un gær­dags­ins.

Millj­arða fjár­fest­ing í raf­vagna

Hann seg­ir að styrk­ur rík­is­ins upp á 900 millj­ón­ir hafi dugað til þessa, fyr­ir utan í far­aldr­in­um, og lagt sé upp með að verja 300 millj­ón­um á ári í end­ur­nýj­un á flot­an­um.

„Ef við ætluðum að skipta út öll­um dísel­flot­an­um þá vær­um við að tala um ansi marga millj­arða á einu bretti. En þær 300 millj­ón­ir sem við not­um á ári í fjár­fest­ing­ar er planið til þess að gera á flot­ann kol­efn­is­laus­an árið 2030.“

1,5 millj­arða á ári frá rík­inu

Jó­hann­es legg­ur áherslu á að Strætó þurfi að verja um 300-350 millj­ón­um á ári til þess að ná þessu mark­miði. Verðlags­hækk­an­ir í kjöl­far stríðsins í Úkraínu hafi vissu­lega sett strik í reikn­ing­inn.

Aðspurður seg­ir hann að Strætó þyrfti að lág­marki um 1,5 millj­arða á ári ef all­ar hans tekj­ur ættu að koma frá rík­inu. En í um­fjöll­un gær­dags­ins var greint frá því að það tæki um 1,8 millj­arða á ári frá rík­inu til þess að gera Strætó gjald­frjáls­an.

„En ef við vær­um að sækja allt sem við þyrft­um til rík­is­ins þá vær­um við að tala um 1.500 millj­ón­ir að lág­marki. En það er svo sem ekki í píp­un­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert