Ofboðið eftir ölvun og slæma hegðun stuðningsmanna

Kveikt var á þremur blysum á meðan á leiknum stóð, …
Kveikt var á þremur blysum á meðan á leiknum stóð, að sögn Magnúsar. mbl.is/Óttar

Sjálfboðaliði í fótboltagæslu á Laugardalsvelli segist ekki munu taka þátt í gæslu á fleiri bikarleikjum eftir bikarleik Víkings gegn FH, sem fram fór í Laugardal í gær.

Vísar hann til ölvunar og slæmrar hegðunar stuðningsmanna.

„Það var hart stuðningsfólk þarna, mikil drykkja og þónokkrir aðilar ofurölvi,“ segir Magnús Kristinsson. Segir hann framkomu stuðningsliðs Víkings hafa verið til háborinnar skammar fyrir íþróttina og liðið. Rusl og svívirðingar hafi flogið yfir gæsluliðið reglulega.

Köstuðu ópalskotum

„Það var eitthvað af ópalskotum sem þessi hópur henti í okkur. Þeir voru með bjórdósir. Vínleitin hefði mátt vera miklu betri að mínu áliti,“ segir Magnús.

Tekur hann þó fram að hann hafi ekki verið í verstu stöðunni en félagar hans sem sinntu gæslu uppi í stúku hafi átt við ofurefli að etja.

Skipuleggjendur þori ekki að taka á málunum

„Ég er ekki til í að taka að mér svona verkefni á meðan ástandið er svona. Mín upplifun er sú að KSÍ og Víkingur þori ekki að taka á þessu. Ef þeir taki hart á þessu þá komi færri á leikinn,“ segir Magnús, sem tekur virkan þátt í sjálfboðastarfi Landsbjargar. 

„Þetta er búið að fara versnandi í hverjum leik, að mér skilst. Á meðan það er ekki tekið á þessu verður þetta verra næst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka