Ellen Calmon hefur tekið formlega við störfum sem ný framkvæmdastýra Barnaheilla. Hún tekur við störfum eftir að hafa ferðast til Jórdaníu og Ítalíu þar sem hún kynnti sér verkefni Barnaheilla – Save the Children þar í landi.
Meðal annars heimsótti hún Za’atari flóttamannabúðirnar sem liggja við landamæri Sýrlands en þær eru stærstu flóttamannabúðir í heimi. Þar dvelja 81.000 íbúar án ríkisfangs.
„Heimsóknin á skrifstofu Barnaheila – Save the Children á Ítalíu var mjög lærdómsrík fyrir mig, nýja í starfi. Það var mjög áhugavert að kynnast því sem samtökin eru að gera á Ítalíu og öðlast þannig örlitla innsýn inn í hversu stór og megnug Barnaheill - Save the Children samtökin eru,” segir Ellen um reynslu sína af heimsókn sinni, í tilkynningu.
„Heimsóknin í flóttamannabúðirnar í Za’atari var bæði ánægjuleg og erfið í senn. Það er erfitt að horfa upp á tugþúsundir fólks, fjölskyldur búa við þessar aðstæður sem eru sannarlega ekki aðstæður frelsis eins og við þekkjum það. Fjölskyldurnar eru hins vegar í nokkuð öruggum aðstæðum í búðunum sem er mest um vert. Ánægjan var hins vegar fólgin í því að sjá hversu mikilvægt starf Barnaheilla í Jórdaníu er. Samtökin skapa öruggar aðstæður fyrir börnin á Barnvænum svæðum þar sem börnin fá að njóta sín í leik og námi,“ bætir hún við.