Samtals eru hafnar framkvæmdir við 8.113 íbúðir á landinu öllu samkvæmt talningu í ágúst og september. Til samanburðar var fjöldinn í mars 7.260 og í september í fyrra 6.001. Nemur fjölgunin milli ára því 35,2%. Þetta er niðurstaða talningar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samtök iðnaðarins stóðu saman að.
Samtals eru 2.433 íbúðir í byggingu í Reykjavík og aðrar 3.263 íbúðir í byggingu annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Það gerir tæplega 5.700 íbúðir samtals á höfuðborgarsvæðinu, eða 70,2% af íbúðum í uppbyggingu á landinu í heild. Til samanburðar var hlutfallið 70,7% í talningunni í mars. Í síðustu talningum hefur Reykjavíkurborg verið með flestar íbúðir í byggingu, en nú virðast önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vera að taka fram úr höfuðborginni varðandi íbúðir í byggingu.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, eru samtals 1.516 íbúðir í byggingu, en annars staðar á landsbyggðinni eru 980 íbúðir í byggingu. Hefur íbúðum í byggingu á landsbyggðinni fjölgað um 268 síðasta hálfa árið og um 367 ef miðað er við september í fyrra. Nemur það tæplega 60% aukningu milli ára.
Í talningunni er lagt mat á framvindu hverrar íbúðar og áætla HMS og SÍ að 1.229 nýjar íbúðir komi á markað á landinu öllu það sem eftir er þessa árs og að á næsta ári verði þær 3.169 talsins. Þá er gert ráð fyrir að rúmlega 3.200 íbúðir af þeim sem eru nú í byggingu verði fullbúnar árið 2024.
Samkvæmt talningunni fjölgaði íbúðum á fyrsta framvindustigi mest. Þar fjölgaði íbúðum um rúmlega 39% frá síðustu talningu. Í tilkynningu vegna talningarinnar segir að það gefi til kynna að mörg ný verkefni hafi farið af stað frá því í mars. Þar sem fjölgun íbúða almennt hefur verið mest undanfarið ár á fyrstu fjórum framvindustigum (af sjö) þýðir það að nokkurn tíma mun taka fyrir þessa fjölgun að skila sér á markaðinn sem fullbúnar íbúðir.
Þegar horft er til höfuðborgarsvæðisins eru 5.696 íbúðir í byggingu. Ef framvindustig eitt er undanskilið eru þær 4.396. Þar af eru 4.034 íbúðir í fjölbýli, eða 91,8%. Í tilkynningu vegna talningarinnar kemur fram að þegar mest hafi verið í gangi á árunum 2018 og 2019 hafi nærri því 5.000 íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu á framvindustigum umfram fyrsta stig, og því sé ljóst að umsvifin hafi ekki enn náð sömu hæðum og þá.
Þegar fjöldi íbúða í byggingu er skoðaður sem hlutfall af núverandi fjölda fullbúinna íbúða í hverju sveitarfélagi/svæði sést að það hlutfall hefur lækkað í Reykjavík, en hækkað á öðrum svæðum, sérstaklega í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, sem jafnan ganga undir nafninu Kraginn. Í tilfelli Reykjavíkurborgar er hlutfallið nú 4,4%, en hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er það nú 8,9% og hefur hækkað úr 4,7% miðað við talninguna í september í fyrra.
Í sveitarfélögum í nágrenni við höfuðborgarsvæðið hefur hlutfallið hækkað úr 6,2% upp í 7,8% og annars staðar á landsbyggðinni er hlutfallið nú 2,8% en var 1,7% fyrir ári síðan.
Tekið er fram að langmesta fjölgun íbúða í byggingu sé í Hafnarfirði, en þar hefur íbúðum í byggingu fjölgað um 559 frá því í mars, eða um 69%. Þar á eftir kemur Árborg, þar sem íbúðum í byggingu hefur fjölgað um 187, eða um 52% og í Kópavogi þar sem íbúðum í byggingu hefur fjölgað um 105, eða 12,7%.