Rannsókn á vettvangi er lokið

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Búið er að hreinsa brunarústirnar þar sem áður var þvotta- og verslunarhúsnæði Vasks á Egilsstöðum eftir stórbrunann þar á miðvikudaginn var.

Lögreglan á Austurlandi, með aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur aflað gagna af vettvangi, en vettvangsrannsókn er lokið. Verið er að vinna úr þeim gögnum að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Austurlandi.

Hann segir niðurstöðu um eldsupptök ekki liggja fyrir. Engan sakaði í brunanum.

Ekki er vitað hvenær vænta má niðurstöðu að sögn Kristjáns. „En í þessu máli eins og öðrum er reynt að vinna þetta eins hratt og hægt er,“ bætir hann við.

Bruninn hefur þegar haft áhrif á hótelstarfsemi á Egilsstöðum, en dæmi eru um að hótel sem Vaskur þjónustaði þurfi nú að keyra þvott sinn í tæpar þrjár klukkustundir suður á Höfn í Hornafirði.

Mikill samhugur er sagður ríkja meðal íbúa Egilsstaða eftir brunann og er hugur fólks með eigendum og starfsfólki Vasks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka