Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir það stærsta verkefni þjóðarinnar að efla íslenska tungu. Ef þjóðin hætti að tala íslensku minnki samkeppnishæfni Íslendinga auk þess sem gríðarleg verðmæti glatist.
„Ferðamenn eru að koma hérna út af sérstakri náttúru og sérstakri menningu. Við erum komin í alþjóðlegt hagkerfi og við getum verið mjög stolt af því en við þurfum að varðveita menningu okkar af því að hún er aðdráttaraflið.“
Ávinningur af því að varðveita íslenskuna er því mikill og hefur þar að auki góð áhrif út á við. „Allt sem er öðruvísi vekur forvitni og áhuga,“ segir Lilja.
Hún segir stjórnvöld leggja áherslu á betra aðgengi að íslenskunámi fyrir innflytjendur og telur þörf á að auka aðgengi fólks að íslenskunámi alveg frá 12 mánaða aldri og út ævina.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.