Hundarnir tættu í sig hænurnar fyrir framan soninn

Sigga Lóa segir fjölskylduna í áfalli og tilfinningatjónið sé mikið.
Sigga Lóa segir fjölskylduna í áfalli og tilfinningatjónið sé mikið. Samsett mynd

„Ég elska öll dýr og er algjör friðarsinni og ég hata að þurfa að standa í þessu. Ég er bara svo reið. Þetta hefur litað allt líf okkar síðustu daga,“ segir Sigríður Ólöf Sigurðardóttir, íbúi í Stykkishólmi. Hún varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu fyrir tveimur vikum að tveir Husky-hundar, sem gengu lausir í bænum, fóru inn í garðinn við heimili hennar, ruddust inn í hænsnakofa og rifu í sig þrjár hænur.

Sigríður, sem alltaf er kölluð Sigga Lóa, segir í samtali við mbl.is hundana áður hafa gengið lausa í bænum og hún óttast að þeir kunni að valda alvarlegum skaða, en eigendurnir fengu þá aftur í hendurnar strax eftir atvikið.

Hún segir eigendurna nýflutta í bæinn með hundana og þeir hafi enn ekki verið skráðir. „Það er ekki búið að fá leyfi fyrir hundunum,“ ítrekar Sigga Lóa.

Hefði geta endað á gjörgæslu

Fjölskyldan hefur haldið hænur sem gæludýr í fjögur ár og var með fimm hænur í kofa í garðinum; þrjár fullorðnar hænur og tvo unga sem komu úr eggjum hjá þeim í sumar, eftir margar tilraunir. Hundarnir náðu að drepa báðar unghænurnar og eina fullorðna hænu.

Hundarnir drápu þrjár af fimm hænum fjölskyldunnar.
Hundarnir drápu þrjár af fimm hænum fjölskyldunnar. Ljósmynd/Sigga Lóa

„Þær eru svo gæfar, það er hægt að taka þær upp og börnin í hverfinu kíkja á þær daglega með rúsínur í vasanum,“ segir Sigga Lóa. Tilfinningatjónið sé því mikið hjá fjölskyldunni, sérstaklega börnunum. Þar fyrir utan séu þau öll í áfalli.

„Hundarnir tættu í sig hænurnar fyrir framan son okkar, 13 ára, sem var einn heima en hann fór beint út í garð til að reyna að stöðva hundana. Þar með var hann komin í mikla hættu sjálfur þar sem Husky-hundar geta verið hættulegir í svona aðstæðum,“ segir Sigga Lóa og útskýrir að áfallið yfir því hafi komið aðeins síðar.

„Við fengum svo mikið eftirásjokk þegar við föttuðum í hverskonar hættu Matthías var. Hann hefði geta verið á gjörgæslu með þrjátíu spor í andlitinu. Hann gekk á milli og reyndi að stoppa hundana í því að drepa hænurnar okkar. Ef hann hefði ekki komið þá hefðu þeir getað drepið þær allar fimm.“

Hundarnir stjórnlausir og bitu hvor annan 

Lögregla var strax kölluð til vegna málsins en hundarnir voru algjörlega stjórnlausir, að sögn Siggu Lóu, sem hélt hundunum sjálf í um hálftíma, eða þar til lögregla kom á staðinn.

„Hundarnir misstu gjörsamlega stjórn á sér meðan beðið var eftir lögreglu og réðust hvor á annan og bitu til blóðs en það gerðist svo aftur að lögreglu viðstaddri. Á meðan stóðu fimm börn grátandi og fylgdust með.“

Sigga Lóa með Gullbrá, elstu hænuna, sem lifði árásina af.
Sigga Lóa með Gullbrá, elstu hænuna, sem lifði árásina af. Ljósmynd/Sigga Lóa

Sigga Lóa segir lögreglu hafa verið algjörlega ráðalausa því ekki hafi náðst í dýraeftirlitsmann á svæðinu. Að lokum varð niðurstaðan sú að eigendurnir fengu hundana aftur, sem hefði aldrei átt að gerast.

„Það sem lögreglan gerði rangt var að láta eigendurna hafa hundana aftur. Þau hefðu aldrei átt að gera það. Þau hefðu geyma hundana þangað til þau náðu í dýraeftirlitsmann Stykkishólmsbæjar. Eigendur hefðu svo átt að að borga sekt vegna þess að þeir gengu lausir, 22 þúsund krónur á kropp.“

Sendi 8 ára barn til að biðjast afsökunar

Sigga Lóa segir réttarstöðu sína í málinu enga. Hún þurfi sjálf að fara í skaðabótamál við eigendur hundana, þar sem þeir eru óskráðir, vilji hún reyna að sækja bætur fyrir hænurnar. „Ef hún hefði verið með leyfi frá Stykkishólmsbæ fyrir þeim, þá gæti ég krafið Stykkishólmsbæ um skaðabætur.“

Tvær unghænur sem voru drepnar komu úr eggjum sem klöktust …
Tvær unghænur sem voru drepnar komu úr eggjum sem klöktust út hjá þeim í voru. Ljósmynd/Sigga Lóa

Eigandinn hafi í fyrstu ekki hafa viljað tala við hana vegna málsins en hafi svo sent barnið sitt yfir til að biðjast afsökunar.

„Hún sendi barnið sitt, átta ára, til okkar samdægurs til að biðjast afsökunar og tilkynna okkur að hundunum yrði lógað,“ segir Sigga Lóa, en samkvæmt bókun lögreglunnar um málið tjáði eigandinn lögreglunni það að búið væri að bóka tíma hjá dýralækni í Reykjavík til að láta svæfa hundana.

Sigga Lóa segir það hins vegar ekki hafa verið gert. Eigandinn hafi farið með hundana til Reykjavíkur og komið öðrum fyrir þar, en hafi komið með hinn aftur til baka. Hann sé því enn í bænum.

Sömu hundar drápu hænur í Bolungarvík

Hún segist hafa fengið það staðfest að sömu hundar hafi drepið hænur í Bolungarvík í vor, þar sem þeir gengu ítrekað lausir í bænum.

Sigga Lóa segir hænurnar mjög gæfar.
Sigga Lóa segir hænurnar mjög gæfar. Ljósmynd/Sigga Lóa

„Þessir hundar hafa áður verið lausir hér í Stykkishólmi og erum við hrædd um að þeir geti valdið alvarlegum skaða. Þar sem annar þessara hunda er enn í bænum vildum við að sem flestir vissu af þessu en hundar af þessari tegund hafa ráðist á lítil dýr, lömb og jafnvel fólk.“

Sigga Lóa og maðurinn hennar hafa verið í sambandi við lögreglu, sveitarfélagið og heilbrigðiseftirlitið vegna málsins. Þau fóru þess á leit við sveitarfélagið að verkferlar í svona málum yrðu skýrðir og að almenningur yrði betur upplýstur um hvað sé hægt að gera í svona aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert