Eldur kviknaði í gróðri á meðan á æfingu sprengjusérfræðinga stóð innan svæðis Keflavíkurflugvallar. Brunavarnir Suðurnesja voru kallaðar á vettvang klukkan 11.54.
Hópar sprengjusérfræðinga frá fjórtán aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) eru hér á landi og æfa viðbrögð við hryðjuverkum. Æfingin er skipulögð af séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar.
Að sögn varðstjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja kviknaði í bifreið á svæðinu, sem var liður í æfingunni, en svo óheppilega vildi til að það kviknaði einnig í gróðri sem var þar í kring.
Viðstaddir réðu ekki við að slökkva gróðureldinn með slökkvitækjum og óskuðu því eftir aðstoð. Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli var búið að slökkva eldinn þegar Brunavarnir Suðurnesja komu að staðinn.
Að sögn varðstjórans var atvikið minniháttar og engin hætta skapaðist vegna þess.