Engin sáttatilboð hafi verið lögð fram

Alþingiskosningar fóru fram á síðasta ári.
Alþingiskosningar fóru fram á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður segir engin sáttatilboð hafa verið lögð fram af hálfu ríkisins vegna kæru frambjóðanda Pírata og frambjóðanda Viðreisnar er varðar kosningar til Alþingis í Norðvesturkjördæmi á síðasta ári.

Hún segir að mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu fari í ákveðið ferli og hluti af því ferli sé að ræða við lögmenn kærenda um möguleika á sáttum.

„Þegar að spurningar eru sendar til ríkisins þá fer í gang formlegt ferli, sem kallast Friendly settlement. Þá tökum við upp símann og ræðum við lögmenn kærenda og það er það sem fór fram.“

Kærðu til MDE

Greint var frá því í morgun að tilraun hafi verið gerð til að ná sáttum í kærumáli Magnús­ar Davíðs Norðdahl, fram­bjóðanda Pírata í Norðvest­ur­kjör­dæmi í síðustu alþing­is­kosn­ing­um, og Guðmund­ar Gunn­ars­son­ar, fram­bjóðanda Viðreisn­ar.

Magnús og Guðmund­ur kærðu þá ákvörðun Alþing­is til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu um að staðfesta síðari kosn­inga­úr­slit­in þrátt fyr­ir að ekki hafi verið rétt staðið að taln­ingu og fram­kvæmd.

Hægt að ná sáttum án þess að viðurkenna brot

Að sögn Fanneyjar kemur ekki til greina að ríkið gangist við broti á ákvæðum sáttmálans í þessu tilviki. Hún segir þó að almennt sé hægt að sætta mál fyrir dómstólnum án þess að viðurkenna brot.

Fanney Rós Þorsteinsdóttir
Fanney Rós Þorsteinsdóttir Ljósmynd/Aðsend

„Það er algengt meðal aðildarríkja að það séu gerðar svokallaðar ex gratia sáttir. Það þýðir að mál eru sætt án þess að brot gegn sáttmálanum sé viðurkennt. Er málum þannig lokið með greiðslu hóflegra bóta og þau felld niður fallist dómstóllinn á þau málalok. En í þessu máli var niðurstaðan sú að ríkið tæki til varna og vinnur nú að greinargerð í málunum.“

Hafa frestað greinargerð

Þá segir ríkislögmaður rangt með farið að ríkið hafi átt að skila greinargerð þann 13. september vegna málsins heldur hafi upphaflega dagsetningin verið 22. september. Sá frestur var framlengdur  til 13. október að beiðni ríkisins.

Aðspurð segir Fanney gríðarlegar annir hafa gert það að verkum að ekki hafi tekist að skila greinargerðinni innan tilsetts tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka