„Erum núna að gefa upp boltann“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri seg­ir að marg­ar vís­bend­ing­ar séu komn­ar fram um að ár­ang­ur sé að nást í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það megi sjá á síðustu verðbólgu­mæl­ing­um og verðþróun á íbúðamarkaði. Þá seg­ir hann að mögu­lega sé komið að toppi vaxta­hækk­un­ar. Í dag til­kynnti pen­inga­stefnu­nefnd bank­ans um 0,25 pró­sentu­stiga stýri­vaxta­hækk­un, en það var nokkru minni hækk­un en fyrr í sum­ar.

Á kynn­ing­ar­fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar í morg­un sagði Ásgeir að Seðlabank­inn hefði náð ár­angri með því að grípa snemma inn í þegar út­lit var fyr­ir aukna verðbólgu og það væri að skila ár­angri núna. Beindi hann næst orðum sín­um að m.a. rík­is­vald­inu og vinnu­markaðinum varðandi næstu skref og sagði það í þeirra hönd­um hvort bank­inn þyrfti að bregðast frek­ar við.

Send­ir bolt­ann á at­vinnu­lífið, vinnu­markað og rík­is­stjórn

„Við erum núna að gefa upp bolt­ann. Seðlabank­inn er bú­inn að ná ár­angri, við erum búin að hækka vexti. Áhrif­in eru kom­in fram. Ætla aðrir að taka við bolt­an­um? Ætlar vinnu­markaður­inn, rík­is­stjórn­in og at­vinnu­lífið að taka við bolt­an­um af okk­ur? Mögu­lega, ef það geng­ur eft­ir, þá kannski þurf­um við ekki að beita vaxta­tæk­inu mikið meira.“ Sagði hann svo að það lægi skýrt fyr­ir að ef það yrði ekki staðan og mál færu að þokast í aðra átt myndi Seðlabank­inn þurfa að beita sér til að ná þeim mark­miðum sem bank­an­um eru sett fyr­ir sam­kvæmt lög­um um verðstöðug­leika.

Bjart­sýnn en samt með varnagla

Ítrekaði hann reynd­ar nokkr­um sinn­um í svör­um sín­um, þrátt fyr­ir að vera al­mennt nokkuð bjart­sýnn á stöðuna, að bank­inn myndi ekki hika við að bregðast við og hækka vexti ef á þyrfti að halda. „Við stönd­um til­bú­in að bregðast við.“

Ásgeir sagði mögu­lega komið að vatna­skil­um varðandi vexti bank­ans, en setti þó alltaf varnagla við orð sín. „Mögu­lega erum við kom­in á topp á þessu vaxta­hækk­un­ar­ferli,“ sagði hann og bætti svo við: „mögu­lega ekki.“ Stuttu síðar kom hann aft­ur inn á þetta atriði: „Mögu­lega erum við kom­in á þann stað núna að við för­um að sjá verðbólgu­hjöðnun miðað við nú­ver­andi vexti“,

Fram­haldið velti á raun­hag­kerf­inu og kjara­samn­ing­um

Ásgeir sagði verðbólgu und­an­farið hafa komið til vegna mik­ill­ar hækk­un­ar á íbúðaverði. Hækk­andi hús­næðis­verð hafi hlaupið inn í vísi­töl­una. Hann væri hins veg­ar bjart­sýnn á að hún gæti gengið til baka. „Eins hratt og verðbólg­an kom inn í gegn­um hækk­un á hús­næðis­verði, eins hratt get­ur hún farið út aft­ur og það er að fara að ger­ast,“ sagði hann.

Sagði hann fram­haldið að miklu leyti velta á gangi raun­hag­kerf­is­ins og næstu kjara­samn­ing­um. Þá hnýtti hann aðeins í for­ystu­fólk í verka­lýðshreyf­ing­unni: „Vinnu­markaður­inn ræður líka til um verðbólgu­vænt­ing­ar og ef for­ystu­menn verka­lýðsfé­lag­anna kom sí­end­ur­tekið fram í fjöl­miðlum og segj­ast ætla að hækka laun miklu meira en fer sam­an við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og þeir eru tekn­ir trú­an­leg­ir, þá hækka verðbólgu­vænt­ing­ar út af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka