Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að margar vísbendingar séu komnar fram um að árangur sé að nást í baráttunni við verðbólguna. Það megi sjá á síðustu verðbólgumælingum og verðþróun á íbúðamarkaði. Þá segir hann að mögulega sé komið að toppi vaxtahækkunar. Í dag tilkynnti peningastefnunefnd bankans um 0,25 prósentustiga stýrivaxtahækkun, en það var nokkru minni hækkun en fyrr í sumar.
Á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun sagði Ásgeir að Seðlabankinn hefði náð árangri með því að grípa snemma inn í þegar útlit var fyrir aukna verðbólgu og það væri að skila árangri núna. Beindi hann næst orðum sínum að m.a. ríkisvaldinu og vinnumarkaðinum varðandi næstu skref og sagði það í þeirra höndum hvort bankinn þyrfti að bregðast frekar við.
„Við erum núna að gefa upp boltann. Seðlabankinn er búinn að ná árangri, við erum búin að hækka vexti. Áhrifin eru komin fram. Ætla aðrir að taka við boltanum? Ætlar vinnumarkaðurinn, ríkisstjórnin og atvinnulífið að taka við boltanum af okkur? Mögulega, ef það gengur eftir, þá kannski þurfum við ekki að beita vaxtatækinu mikið meira.“ Sagði hann svo að það lægi skýrt fyrir að ef það yrði ekki staðan og mál færu að þokast í aðra átt myndi Seðlabankinn þurfa að beita sér til að ná þeim markmiðum sem bankanum eru sett fyrir samkvæmt lögum um verðstöðugleika.
Ítrekaði hann reyndar nokkrum sinnum í svörum sínum, þrátt fyrir að vera almennt nokkuð bjartsýnn á stöðuna, að bankinn myndi ekki hika við að bregðast við og hækka vexti ef á þyrfti að halda. „Við stöndum tilbúin að bregðast við.“
Ásgeir sagði mögulega komið að vatnaskilum varðandi vexti bankans, en setti þó alltaf varnagla við orð sín. „Mögulega erum við komin á topp á þessu vaxtahækkunarferli,“ sagði hann og bætti svo við: „mögulega ekki.“ Stuttu síðar kom hann aftur inn á þetta atriði: „Mögulega erum við komin á þann stað núna að við förum að sjá verðbólguhjöðnun miðað við núverandi vexti“,
Ásgeir sagði verðbólgu undanfarið hafa komið til vegna mikillar hækkunar á íbúðaverði. Hækkandi húsnæðisverð hafi hlaupið inn í vísitöluna. Hann væri hins vegar bjartsýnn á að hún gæti gengið til baka. „Eins hratt og verðbólgan kom inn í gegnum hækkun á húsnæðisverði, eins hratt getur hún farið út aftur og það er að fara að gerast,“ sagði hann.
Sagði hann framhaldið að miklu leyti velta á gangi raunhagkerfisins og næstu kjarasamningum. Þá hnýtti hann aðeins í forystufólk í verkalýðshreyfingunni: „Vinnumarkaðurinn ræður líka til um verðbólguvæntingar og ef forystumenn verkalýðsfélaganna kom síendurtekið fram í fjölmiðlum og segjast ætla að hækka laun miklu meira en fer saman við verðbólgumarkmið Seðlabankans og þeir eru teknir trúanlegir, þá hækka verðbólguvæntingar út af því.“