Hundruð barna á leikskólaaldri bíða enn eftir leikskólaplássi hjá Reykjavíkurborg. Mikil mannekla ríkir enn á leikskólum en borgin hefur farið í ýmsar aðgerðir með það að markmiði að laða til sín starfsfólk.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is um stöðu leikskólamála.
Málaflokkurinn hefur mikið verið í umræðunni upp á síðkastið. Ekki síst vegna mótmæla foreldra biðlistabarna og barnanna sjálfra sem hafa látið heyra í sér á fundum borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Alls bíða nú 544 tólf mánaða eða eldri börn eftir leikskólaplássi hjá Reykjavíkurborg, 93 þeirra eru þó í vistun hjá sjálfstætt starfandi leikskólum en bíða flutnings í leikskóla á vegum borgarinnar. Biðlistabörnin voru 706 talsins þann 15. ágúst, en fjöldi barna hefur bæst á listann síðan þá.
Í byrjun september greindi borgin frá því að byrjað væri að innrita börn sem væru fimmtán til sextán mánaða gömul. Nú er verið að innrita börn sem fæddust í júní 2021. Er staðan því sú sama og í síðasta mánuði, en enn er verið að innrita sextán mánaða börn.
Um miðjan ágúst var greint frá því að 200 leikskólapláss væru laus hjá borginni en ekki væri hægt að nýta þau vegna manneklu. Ekki hafa fengist upplýsingar frá borginni um hvort sú staða hafi breyst.
Samkvæmt upplýsingum frá borginni er þó unnið hörðum höndum að því að fá fólk til starfa á leikskólum. Hefur meðal annars verið farið í auglýsingaherferð, nýtt starfsumsóknarkerfi tekið í notkun sem á að einfalda umsóknarferlið, farið í samvinnuverkefni með Afleysingastofu Reykjavíkurborgar og sérstakur stuðningur veittur til leikskóla sem þurfa að fylla í margar stöður.
Einnig hefur móttaka nýliða verið bætt með miðlægri fræðslu og stuðningi með það að markmiði að efla faglega þekkingu og færni starfsmanna og skapa stöðugleika í starfsmannahópnum. Sömuleiðis hefur verið veittur sérstakur stuðningur við stjórnendur leikskóla hvað varðar umbætur í starfsumhverfi þar sem þörfin er talin brýnust. Þá hefur mannauðsráðgjafi verið ráðinn tímabundið til að hafa yfirsýn yfir og fylgja eftir nýjum og eldri verkefnum vegna mönnunar og starfsumhverfis leikskóla.
Borgin er nú einnig með í mótun tilraunaverkefni til að koma til móts við fólk sem þarf stuðning til að hefja störf í leikskólum, t.d. vegna íslenskukunnáttu eða breytinga á starfsvettvangi.
Til stendur að opna þrjá nýja leikskóla á árinu. Eru það leikskólarnir Múlaborg, Hagaborg og Vogabyggð. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er opnun þeirra á áætlun.
Múlaborg opnar nú í mánuðinum, mönnun er þó ekki lokið að fullu og er því enn óvissa um hversu hratt verður hægt að taka börn inn. Þá mun Hagaborg opna í nóvember og Vogabyggð í desember.