Kemst heim á laugardag: „Á bara ekki að gerast“

Gísli Finnsson hefur dvalið á sjúkrahúsi á Spáni í næstum …
Gísli Finnsson hefur dvalið á sjúkrahúsi á Spáni í næstum tvo mánuði en honum verður loksins flogið heim á laugardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Gísli Finnsson sem fannst meðvitundarlaus fyrir utan veitingastað á Torrevieja á Spáni þann 21. ágúst, og hefur síðan þá dvalið á sjúkrahúsi þar í landi, mun komast heim til Íslands á laugardaginn. Óljóst er hvað kom fyrir Gísla þann örlagaríka dag en hann glímir við heilaskaða.

Gísli hefur ekki komist heim vegna þess að hann er ekki með ferðatryggingu. Hann var þó með sjúkratryggingakort en það greiðir ekki niður sjúkraflug. Hann hefur því dvalið á sjúkrahúsi á Spáni í einn og hálfan mánuð og hafa ættingjar og vinir heimsótt hann þangað. 

Að sögn Hildar Torfadóttur, barnsmóður Gísla, er það þökk sé örlæti þeirra sem hafa lagt fram hjálp sína í söfnun fyrir Gísla ásamt óvæntri hjálp frá Noregi að Gísli sé nú á heimleið.

Vilja líka aðstoða Sigurð

„Söfnunin er búin að ganga vonum framar. Það er svo mikið af góðu fólki til að maður er bara í áfalli,“ segir Hildur sem bætir við að upprunalega hafi það átt að kosta 55 þúsund evrur eða næstum því átta milljónir íslenskra króna að leigja sjúkraflugvél til að flytja hann heim en að nýlega hafi þau fengið talsvert lægra tilboð frá Noregi.

„Við fengum lægra tilboð frá Noregi en það er sex milljónir og þess vegna erum við nánast bara komin með þetta,“ segir hún en bætir við að ef svo heppilega vill til að það safnist meira en þarf til að borga sjúkraflugið ætla þau að gefa eftirstöðvarnar til fjölskyldu Sigurðar Kristinssonar.

Sigurður er í svipaðri stöðu og Gísli en um miðjan ágúst fékk hann heilablæðingu á meðan hann dvaldi á Torrevieja. Hann var í kjölfarið lagður inn á sjúkrahús þar sem hann dvelur enn þrátt fyrir tilraunir fjölskyldu að koma honum heim.

Fjölskylda Sigurðar sagði í þætti Kastljóss í gær að þau kæmu að lokuðum dyrum hjá Sjúkratryggingum Íslands hvað varðar sjúkraflug en hann var heldur ekki ferðatryggður. 

Hildur vonast því til að geta aðstoðað dætur Sigurðar í að koma honum heim til Íslands.

Gísli Finnsson ásamt börnunum sínum þremur.
Gísli Finnsson ásamt börnunum sínum þremur. Ljósmynd/Aðsend

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikningsnúmerið:

0511-14-025021

Kt:300890-2109

Spurð hvers vegna þeim hafi borist svo lágt tilboð frá Noregi fyrir sjúkraflugið segir Hildur að Gísli eigi frænda í Noregi sem er tengdur sjúkraflutningum. Vinur frænda Gísla mun fljúga sjúkraflugvélinni á laugardaginn.

Hefði verið ódýrara að fljúga strax

„Þetta á bara ekki að gerast. Ef hann ætti ekki okkur að, hvað þá? Væri hann þá bara þarna?“ spyr Hildur sem harmar það að ekki sé til staðar neitt kerfi hjá Sjúkratryggingum Íslands til að grípa svona tilvik þar sem Íslendingur festist erlendis og fær ekki jafn góða umönnun og hann myndi fá heima. 

Hún segir það vera hálf kaldhæðnislegt að það hefði verið miklu hagstæðara fyrir Sjúkratryggingar Íslands að fljúga Gísla beint heim enda hefur það kostað mjög mikið að hafa hann svona lengi vistaðan á sjúkrahúsi á Spáni. 

„Það eru ekkert allir sem geta haft kreditkort og ekki allir sem eiga rétt á tryggingum,“ bendir hún á.

Íslenska og fjölskylda mikilvæg bata

Aðspurð segir hún að þegar hún hafi verið þarna á sjúkrahúsinu hafi hún orðið vör við það að læknarnir væru ekki að sinna Gísla nægilega vel.

„Hann er ekkert að fá mikla umönnun þarna og það verður miklu betra þegar hann kemur heim. Það hjálpar honum ekki neitt að skilja ekki hvað er verið að segja við hann. Hann verður að heyra íslenskuna. Maður heyrir alveg hvernig hann bregst allt öðruvísi við því.“

Hún bætir við að með hverju skiptinu sem hann er heimsóttur sýni hann meiri og meiri viðbrögð og þar með bata. 

Ráðgáta hvað kom fyrir

Hildur segir það afar óþægilegt að vita ekki hvað kom fyrir Gísla en að hennar sögn fannst hann fyrir utan veitingastað á Torrevieja.

Hún tekur þó fram að það líti ekki út fyrir að hann hafi lent í einhvers konar árás þar sem að áverkar benda ekki til þess. 

„Það er bara eins og hann hafi legið lengi. Með svona skrámur á fótum eins og hann hafi verið í hliðarlegu í svolítinn tíma. Þetta er bara algjör ráðgáta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka