Karlmaður á fimmtugsaldri var í síðustu viku dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa í vörslu sinni um 5,7 kg af amfetamíni og amfetamínvökva.
Í dóminum kemur fram að lögregla hafi fundið 4,7 kg af amfetamíni með 70-72% styrkleika og 990 ml af amfetamínvökva, með 61% styrkleika, ofan í frystikistu sem staðsett var í geymslu íbúðar í Hafnarfirði.
Þá hafði maðurinn einnig í vörslu sinni tvö sverð, útdraganlega kylfu, tvö handjárn, lásboga og gasskotvopn, en lögreglan fann þau einnig í umræddri geymslu.
Maðurinn, Garðar Ingvar Þormar, játaði brot sín skýlaust og var hann fundinn sekur á grundvelli játningar sinnar. Samkvæmt sakavottorði hafði hann ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi, en dómurinn taldi með hliðsjón af dómaframkvæmd að hæfileg refsing væri þrjú og hálft ár. Þá var Garðari gert að greiða samtals tæplega eina milljón í sakarkostnað.