Hæstiréttur vísaði í dag endurupptöku svokallaðs Exeter-máls gagnvart Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP banka, frá dóminum. Rök dómsins voru sú að meðferð málsins fyrir Hæstarétti þjónaði fyrirsjáanlega engum tilgangi og væri því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá. Segir í dómi Hæstaréttar að af því leiði að héraðsdómur frá árinu 2013 um sýknu Styrmis Þórs standi óhaggaður.
Nefnir Hæstiréttur enn fremur að Endurupptökudómur hefði átt að vísa málinu til endurupptöku hjá Landsrétti en ekki Hæstarétti vegna mikilvægi munnlegrar sönnunarfærslu í málinu.
Hæstiréttur dæmdi Styrmi í eins árs fangelsi árið 2013 fyrir hlutdeild í Exeter-málinu. Hæstiréttur sneri þar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði sýknað Styrmi af ákærunni.
Komst Hæstiréttur þá að þeirri niðurstöðu að Styrmir ætti hlutdeild að umboðssvikum sem vörðuðu Byr sparisjóð en Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, og Ragnar Zophoníus Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, voru sakfelldir í sama máli og gert að sæta fangelsi í fjögur ár og sex mánuði
Þeim var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í hættu með því að fara út fyrir heimildir lánveitinga rétt fyrir fjármálahrunið 2008.
Eftir að hafa verið sakfelldur fór Styrmir með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem hann taldi að brotið hefði verið á rétti sínum um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Kæra Styrmis til MDE var fyrst og fremst byggð á því að Hæstiréttur hafi neitað honum um málsmeðferð. Styrmir sagði Hæstarétt hafa komist að sinni niðurstöðu um fangelsisdóm með því að endurmeta vitnisburð vitna í héraðsdómi, en vitnin komu ekki fyrir Hæstarétt. Styrmir vann málið í Strassburg. Hann fékk hins vegar engar bætur greiddar nema málskostnað.
Eftir að Styrmir vann málið fyrir MDE var haft eftir lögmanni hans, Ragnari Hall, að Styrmir væri búinn að afplána refsidóm og að hann teldi Styrmi eiga rétt á bótakröfu og að líklegt væri að hann myndi leiti réttar síns.
Fór það svo að í apríl á þessu ári féllst Endurupptökudómur á beiðni Styrmis um endurupptöku á málinu. Í úrskurði Endurupptökudóms kom fram að brot á reglunni um milliliðalausa málsmeðferð fæli í sér verulegan galla á meðferð máls og var því fallist á endurupptöku.
Hæstiréttur bendir á í niðurstöðu sinni að nauðsynlegt sé að hafa munnlega sönnunarfærslu til að geta dæmt úr málinu en hún getur ekki farið fram fyrir Hæstarétti eftir gildistöku laga nr. 47/2020 um breytingu á lögum um dómstóla.
Bendir Hæstiréttur þá á að Endurupptökudómi hefði þar með átt að nýta heimild í lögum um meðferð sakamála til að vísa málinu til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti þar sem munnleg sönnunarfærsla getur farið fram.
„Jafnframt hefði Endurupptökudómi borið að gæta að þessu af sjálfsdáðum. Þá vísaði rétturinn til þess að í því ljósi að málið hefði verið endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu yrði ekki úr því bætt nema með því að leiða X og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.
Bendir Hæstiréttur á að réttinum væri ókleift að bæta úr þessum annmörkum og hefði heldur ekki lagaheimild til að hnekkja ákvörðun Endurupptökudóms eða vísa málinu til Landsréttar.
Segir því í niðurstöðu Hæstaréttar að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti, enda þjóni meðferð málsins fyrir réttinum fyrirsjáanlega engum tilgangi.