Starfsmaður hótels í miðbæ Reykjavíkur óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna tveggja einstaklinga sem neituðu að yfirgefa hótelið. Lögreglan fór á vettvang og vísaði þeim á brott, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um ölvaðan mann í miðbæ Reykjavíkur sem lá á dyrabjöllu íbúðarhúss. Lögreglan fór á vettvang og fann mann sem reyndist vera mjög ölvaður og illa áttaður.
Maðurinn var að leita að vini sínum og hafði farið húsavillt. Lögreglan hjálpaði manninum að finna út úr því hvar vinur hans átti heima og fylgdi honum að réttu húsi þar sem tekið var á móti honum.
Bifreið var stöðvuð eftir hraðamælingu á 131 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km á Kringlumýrarbraut. Ökumaðurinn viðurkenndi brotið og var vettvangsskýrsla rituð.
Bifreið var stöðvuð í hverfi 108. Ökumaðurinn var ekki með ökuskírteini meðferðis og gat ekki framvísað lögmætum skilríkjum. Ökumaðurinn heimilaði leit og fundust meint fíkniefni í smelluláspoka í farþegarými bifreiðarinnar. Ökumaðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna.