Nauðsynlegt er að grípa til viðeigandi ráðstafana á norðanverðu landinu vegna illviðris sem gengur yfir landið á sunnudag.
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi.
„Viðbúið er að röskun verði á samgöngum í svona veðri og einnig þarf að ganga frá öllu utandyra og koma búfénaði í skjól. Ferðir á milli landshluta verða erfiðar, og vissara að skipuleggja þær á laugardag eða mánudag,“ segir í færslu Veðurstofunnar á Facebook.
Veðurstofan bendir þá á að viðvörunarstig geti mögulega hækkað þegar nær dregur. Til fjalla er spáð hríð meira og minna allan sunnudaginn, fyrst norðvestan til.
Þá er spáð hvassri norðanátt og mikilli úrkomu, á láglendi er spáð slyddu eða rigningu í fyrstu en síðan slyddu og snjókomu.