Kaupir lóðir af skátunum á 790 milljónir

Hjálparsveit Skáta í Kópavogi.
Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæjarráð Kópavogsbæjar hefur falið sviðsstjóra umhverfissviðs að ganga frá samningi við Hjálparsveit skáta í Kópavogi (HSSK) um kaup á tveimur lóðum hennar á Kársnesi fyrir um 790 milljónir króna, að frádregnu virði annarrar lóðar sem hjálparsveitin fær í staðinn úthlutað frá bænum.

„Það var og er ríkur vilji og einhugur hjá Kópavogsbæ að leysa húsnæðismál HSSK,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.

„Fyrirhuguð uppbygging á Kársnesi og tilkoma Borgarlínu gerði það hins vegar að verkum að starfsemi HSSK fer betur annars staðar.“

Fá lóð sem er metin á 100 milljónir

Eftir mikla samráðsvinnu er það niðurstaðan að hagsmunum Kópavogsbæjar og HSSK sé best borgið með því að samþykkja erindið. Þar með er óvissu í framtíðaráformum Hjálparsveitarinnar tryggð og starfseminni fundinn staður í nýju húsnæði,“ segir í bókun hjá bæjarráði.

HSSK fær úthlutað lóð að Tónahvarfi 8 og í staðinn fær Kópavogsbær lóðirnar Bakkabraut 4 og Bryggjuvör 2 þar sem hjálparsveitin hefur verið með aðstöðu. Lóðin Tónahvarf 8 er metin á um 100 milljónir.

Í samningnum felst að HSSK verði áfram með aðstöðu fyrir bátaskýli við höfnina á Kársnesi.

Ásdís Kristjánsdóttir.
Ásdís Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Gert er ráð fyrir því að borgarlínan muni liggja að hluta til í gegnum núverandi lóð HSSK að Bakkavör. Í samtali við Kópavogsblaðið segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, að miðað við skipulagið sem er framundan hafi verið talið mikilvægt að lóð HSSK yrði í eigu bæjarins, að minnsta kosti tímabundið. Mikil uppbyggingin sé framundan á Kársnesinu og bærinn muni fá verðmæti fyrir reitinn til baka. 

Uppfært:

Fram kom í fyrri útgáfu fréttarinnar að húsnæðið í Tónahvarfi 8 sé metið á um 100 milljónir króna en hið rétta er að lóðin er metin á þessa upphæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert