Orkumálin gríðarþung í Evrópu

Tékkneski forsætisráðherrann Petr Fiala býður Katrínu velkomna til Pragfundarins í …
Tékkneski forsætisráðherrann Petr Fiala býður Katrínu velkomna til Pragfundarins í dag þar sem leiðtogar rúmlega 40 Evrópuríkja báru saman bækur sínar. AFP/Joe Klamar

„Þetta er náttúrulega bara mjög óvenjulegur fundur þar sem hann á að vera óformlegur, það er engin yfirlýsing sem liggur fyrir fundinum eða neitt slíkt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is en hún er stödd á fundi Pólitísks bandalags Evrópuríkja, EPC, í Prag í Tékklandi.

Á fundinum bera pólitískir leiðtogar yfir 40 Evrópuríkja saman bækur sínar og ræða stöðu Evrópu, framtíðina auk stjórnmálalegrar framtíðar álfunnar. „Einhverjar gagnrýnisraddir mátti heyra fyrir fundinn um að þetta væri bara enn eitt batteríið, en ég myndi segja að eftir daginn ríki mikil jákvæðni og samstaða í þessum hópi frá Evrópuríkjunum,“ segir forsætisráðherra.

Komu leiðtogar frá öllum Evrópuríkjum, að Rússlandi og Hvíta-Rússlandi undanskildum, saman í Prag og stýrði Katrín umræðum um orku-, efnahags- og loftslagsmál ásamt slóvenskum starfsbróður sínum, Robert Golob.

Katrín ásamt Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, og Olaf Scholz Þýskalandskanslara …
Katrín ásamt Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, og Olaf Scholz Þýskalandskanslara við opnunarathöfn fundarins í dag. AFP/Ludovic Marin


„Það er náttúrulega ljóst að orkumálin eru gríðarlega þung víða í Evrópu og fólk áttar sig á að við á Íslandi höfum mikla sérstöðu með okkar orkukerfi, orkufyrirtæki og grænu lausnir, en við erum auðvitað ekkert ónæm fyrir alvarlegum samdrætti í Evrópu og okkar hagsmunir að tekist verði á við þetta ástand sem nú ríkir,“ segir Katrín.

Kveður hún í senn mikilvægt að takast á við orkukreppuna og tryggja að seglin verði ekki rifuð í baráttunni við loftslagsvána. Endurnýjanlegir orkugjafar og innleiðing þeirra hafi því verið áberandi í þeim umræðum sem Katrín og Golob stýrðu í dag.

Hvikum hvergi í okkar samstöðu

Þá hafi fjórar málstofur verið haldnar á fundinum, tvær um friðar- og öryggismál og hinar tvær um orku- og efnahagsmál. „Þarna koma ekki fram neinar niðurstöður og það er engin yfirlýsing sem er samþykkt nema kannski bara sú pólitíska yfirlýsing að við séum að funda og þessir málaflokkar njóti athygli. Nú er þetta auðvitað allt í skugga innrásarinnar í Úkraínu og í dag var lögð á það mikil áhersla að við hvikum hvergi í okkar samstöðu,“ segir Katrín og bætir því við að Volódimír Selenskí Úkraínuforseti hafi ávarpað fundinn.

Ráðherra mætir til fundarins.
Ráðherra mætir til fundarins. AFP/Ludovic Marin

Kom fram í málflutningi forseta að hann og landar hans væru hvergi að gefast upp og héldu áfram af fullum krafti á ögurstundu og var gerður góður rómur að.

Fjöldahjálparstöð ekki vegna neyðarástands

Fundurinn stóð aðeins í dag og er honum því lokið nú en undir lokin forvitnast mbl.is um álit ráðherra á stöðu flóttamannamála á Íslandi í dag þar sem innviðir virðast á mörkum þess að bera þann fjölda sem nú streymir til landsins.

Fiala forsætisráðherra tekur á móti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.
Fiala forsætisráðherra tekur á móti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. AFP/Forsetaskrifstofa Tyrklands

„Þessi staða og þessi ákvörðun að opna þessa fjöldahjálparstöð sýnir okkur bara álagið á okkar innviði. Stjórnvöld á Íslandi töku þá ákvörðun að taka á móti öllum frá Úkraínu og þá ákvörðun stöndum við auðvitað við,“ segir Katrín. „Við erum líka með fleiri en áður frá Venesúela að því ógleymdu að fullt af fólki er að koma í gegnum þetta venjulega kerfi okkar og sækir um og fær synjun eða samþykki.

Hún segir aðstæður auðvitað með óvenjulegu sniði nú um stundir, hátt í 2.000 flóttamenn frá Úkraínu séu komnir til landsins og því í mörg horn að líta. „Við erum að finna húsnæði, skólavist og annað og þessi fjöldahjálparstöð er ekki sett á laggirnar vegna þess að það sé neyðarástand heldur einfaldlega vegna þess að það tekur bara lengri tíma en áður að leysa úr þörfum hvers og eins. Þannig er þetta og við verðum bara að vera heiðarleg með það að þetta er mikið álag á okkar innviði,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frá nýafstöðnum fundi EPC í Prag.

Recep Tayyip Erdogan ræðir við Ilham Aliyev, forseta Aserbaídsjan, og …
Recep Tayyip Erdogan ræðir við Ilham Aliyev, forseta Aserbaídsjan, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, en á myndinni má einnig sjá Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP/Forsetaskrifstofa Tyrklands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert