Allar viðbragðsáætlanir Landsnets hafa verið virkjaðar vegna óveðursins sem er spáð á sunnudaginn með tilheyrandi appelsínugulri viðvörun. Farið hefur verið yfir mönnun, staðsetningar á tækjum og ýmislegt fleira.
Að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets, var morguninn nýttur til fundarhalda með almannavörnum, Vegagerðinni og fleiri viðbragðsaðilum þar sem rýnt hefur verið í veðurspána, en Landsnet annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa.
„Við höfum fundað með veðurfræðingi, sérstaklega með áhrif flutningskerfisins í huga, hvar mögulega við gætum lent í vandræðum og hvar ekki. Það eru tveir dagar í þetta og við munum fylgjast með vel um helgina og vonandi geta brugðist við ef eitthvað gerist,“ segir Steinunn, spurð út í viðbúnað Landsnets.
Spurð hvort búist sé við álíka veðri og árið 2019 þegar fjöldi rafmangsstaura brotnaði, segir hún óvissu uppi um það.
„Við vitum aldrei nákvæmlega hvernig lægirnar eru þegar þær skella á landinu en mér heyrist veðurfræðingar telja að þetta verði nálægt veðrinu 2019 en því fylgdi ísing á línur hjá okkur. Það er kannski það sem við höfum áhyggjur af í augnablikinu.“
Stærstu bilanirnar í kerfi Landsnets árið 2019 urðu á Dalvíkurlínu, Kópaskerslínu, Laxárslínu og Húsavíkurlínu. Samtals skemmdust 103 staurar auk skemmda á tengivirkjum svo sem Hrútatungu, að því er Steinunn greinir frá.
Stærstu skemmdirnar í kerfi Landsnets urðu á eftirfarandi stöðum: