Björgunarsveitir um allt land eru í viðbragðsstöðu en fyrsta hríðarveðri vetrarins er spáð á sunnudaginn og fram á mánudagsmorgun.
Appelsínugul viðvörun vegna veðurs tekur gildi fyrir Strandir og norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og miðhálendi, á sunnudaginn. Þá verða gular viðvaranir í gildi fyrir aðra landshluta. Óveðrið byrjar á Vestfjörðum og gengur síðan yfir landið til austurs.
Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir aðgerðarstjórnendur björgunarsveita hafa setið fund með Veðurstofu.
Þá séu björgunarsveitir í viðbragðsstöðu og verða reiðubúnar að bregðast ef til þess kemur. Annars sé ekki búið að grípa til sérstakra ráðstafana.
Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir væntanlegt að allar samgöngur truflist á sunnudaignn. Er fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni á sunnudaginn, fara frekar á laugardagskvöldi eða bíða fram á mánudag.