Frumvarpi dómsmálaráðherra til breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðlega vernd) er m.a. ætlað að „samræma löggjöf og framkvæmd þessara mála við umgjörð annarra Evrópuríkja, einkum annarra Norðurlanda,“ segir í greinargerð.
Þar kemur m.a. fram að fjöldi umsókna um vernd hér á landi frá einstaklingum sem þegar hafa fengið vernd í öðru Evrópuríki eigi sér ekki neina hliðstæðu í álfunni. Þetta má m.a. rekja til séríslenskra reglna.
Þá segir í greinargerðinni að hátt hlutfall umsókna á Íslandi frá fólki með vernd í öðru Evrópuríki hafi verið notað sem dæmi innan Schengen og hjá stofnunum ESB um þær hættur sem geta komið upp þegar ríki setja sér sérstakar málsmeðferðar- og undanþágureglur.
Umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi á þessu ári voru orðnar 2.894 þann 28. september síðastliðinn og hafa aldrei verið fleiri.
Stríðið í Úkraínu hefur valdið þungum straumi flóttafólks hingað til lands. Það sem af er þessu ári bárust langflestar umsóknir í mars, í byrjun stríðsins, og voru þær 678. Frá byrjun ársins 2022 og til 28. september sóttu 1.719 Úkraínumenn um vernd á Íslandi. Næstfjölmennasti hópur umsækjenda var fólk með ríkisfang í Venesúela.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.