„Það er hægt að segja að sumt sem er gert í innflytjendamálum á Norðurlöndum sé jákvætt og maður fann að það er augljóslega annar tónn í Norðmönnum en hjá Dönum varðandi þennan hóp. Það var eiginlega stóra sjokkið í ferðinni að mínu mati hvað manni fannst Danirnir hafa lítið pláss fyrir mannúð í þessum málaflokki,“ segir Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar um ferðalag allsherjarnefndar Alþingis til Danmerkur og Noregs til að kynna sér innflytjendamál þar.
Í grein í Morgunblaðinu í gær var rætt við Bryndísi Haraldsdóttur formann nefndarinnar og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, varamann í nefndinni um ferðina. Í máli Bryndísar kom fram að miklu meiri samstaða væri um málefni innflytjenda í Noregi og Danmörku en hérlendis og Sigmundur Davíð sagði Íslendinga alveg búna að missa tökin á þessum málaflokki.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir Dani hætta að líta á hælisleitendur sem fólk og gagnrýnir orð Sigmundar og segir þau hræðsluáróður.
Helga Vala segist ekki alveg sammála Bryndísi og Sigmundi Davíð, þó það sé rétt sem komi fram hjá Bryndísi að Norðmenn leggi mikla áherslu á réttláta málsmeðferð. „Þau leggja mikla áherslu á að öllum slíkum reglum sé stíft fylgt og málefni hvers og eins umsækjanda skoðuð sérstaklega. Það var mjög jákvætt að sjá það.“
Helga Vala segir að þessi 48 stunda leið sem Sigmundur Davíð talar um í viðtali í Morgunblaðinu í dag, sé alveg í gangi hérlendis. „Það er alveg verið að afgreiða sum mál á mjög skömmum tíma á Íslandi líka. Það var mjög mikið talað um þetta á sínum tíma að það væri ekki gert hér, en eftir því sem ég best veit er verið að nota þessa málsmeðferð hérlendis núna.”
Helga Vala segir að ýmislegt hafi komið henni spánskt fyrir sjónir í Danmörku í ferðinni. „Ég spurði dönsku þingmennina út í ákvörðun þeirra að vísa fólki til Rúanda sem væri að sækja um hæli í Danmörku, því Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun Breta væri á skjön við bæði Mannréttindasáttmála Evrópu og Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Það voru send tilmæli til Breta um að gera það ekki sem endaði í því að flugvél, sem átti að flytja flóttafólk frá Bretlandi til Rúanda, var kyrrsett, þannig að Bretar gátu ekki vísað þessum hópi frá landinu. Dönsku þingmennirnir virtust bara alveg ómeðvituð um þetta mál, sem kom mér mikið á óvart að þau hefðu ekki kynnt sér þetta mál.”
Nú hefur líka komið fram að Danir skoða farsíma flóttamanna til að ganga úr skugga um að flóttamenn séu þeir sem þeir segjast vera. „Danirnir voru líka spurðir hvort að þetta samræmdist lögum um friðhelgi einkalífs að þú þyrftir að afhenda þinn síma og þeir virtust lítið hugleiða þann þátt málsins. Mér finnst það svolítið sérstakt, því þótt þú sért á flótta og sért að sækja um vernd í öðru landi þá nýtur þú áfram friðhelgis einkalífs. Hins vegar getur þú þurft að færa sönnur á að þú hafir ekki verið einhvers staðar áður og sért beðinn að finna þær upplýsingar.“
Helga Vala segir að í flestum tilfellum sé flóttafólk ekki að lenda á Íslandi sem fyrsta viðkomustað í Evrópu, fyrir utan flóttafólk frá Venesúela, enda Ísland fyrsti viðkomustaðurinn að vestan. „Flest flóttafólk kemur að austan, en þetta gæti samt skýrt að hluta að við erum með fleiri flóttamenn frá Venesúela miðað við höfðatölu en hin Norðurlöndin, af því að millilendingin er í Keflavík og þá fer fólk út úr vélinni og sækir um hæli.”
Hún segir að það hafi einnig talsvert verið talað um að stjórnvöld í Venesúela hafi verið að selja vegabréf, til dæmis til Sýrlendinga, og því séu íslensk stjórnvöld að halda fram. Hins vegar segir hún lítið hægt að gera í því, ef fólkið er komið með löglegt vegabréf í hendurnar. „Við getum ekkert annað en samþykkt slík vegabréf sem gild, ef fólk er með tvöfaldan ríkisborgararétt.”
Helga Vala er spurð út í orð Sigmundar Davíðs um að það sé stundað að losa sig við skilríki til þess að geta verið lengur í umsóknarferlinu og að 90% umsækjenda frá tilteknu landi segðust vera börn en væru þó fullorðnir.
„Flóttafólk frá ákveðnum ríkjum hefur ekki skilríki og þarf að kaupa sér skilríki til að geta ferðast, það er bara staðreynd. Það er mjög hæpið að koma með svona sleggjudóma og setja yfir allan hópinn, því þessi mál eru mjög mismunandi og það má ekki gleymast að við erum að tala um líf og framtíð fólks.“
Arndís Anna var í ferðinni og sagði margt sláandi sem þau höfðu séð, sérstaklega í Danmörku. Hún sagði skoðanir Sigmundar Davíðs um að Ísland væri búin að missa tökin í málaflokknum vera „óþolandi hræðsluáróður og að Sigmundur Davíð þreytist seint á að röfla um 48 tíma meðferðina.“ Hún segir að kerfið á Íslandi sé í grunninn mjög svipað, þótt það sé ekki skjalfest að meðferð verði að taka 48 stundir en mál sem falla undir flokkinn “tilhæfulausar umsóknir,“ fari í flýti meðferð hérlendis og fólk sé iðulega flutt úr landi innan nokkurra daga.
Arndís Anna gefur lítið fyrir það að þrasað sé hérlendis um alla innflytjendur sem fá ekki hælisvist í landinu og segir bara örfá mál ná augum almennings og rati þannig í fjölmiðla. „Mál þar sem eru börn hafa helst náð athygli landsmanna, sem er kannski skiljanlegt.“
Hún segir að það hafi mjög sláandi að sjá hvernig frændur okkar Danir taka á málum innflytjenda, bæði í samtölum við stjórnmálamennina og við fólkinu á gólfinu og hún er sammála Helgu Völu um að það sé brot á friðhelgi viðkomandi að farsímar séu teknir til að staðfesta hver viðkomandi sé. „Þetta eru svakaleg inngrip í einkalíf fólks og mér finnst það mjög áhugavert að vita hvort þetta standist okkar mannréttindaskuldbindingar. En þau virtust ekkert víla þetta fyrir sér og voru eiginlega hálfhissa þegar við bentum á að þetta gæti stangast á við lög.“
Arndís Anna segir að mistökin sem Danir geri í þessum málaflokki sé að þeir séu hættir að líta á hælisleitendur sem fólk. „Því miður fannst mér það einkenna allt þeirra tal um málaflokkinn, eins og það væri verið að bjarga dýrahjörð en ekki að taka á móti manneskjum.“
En á jákvæðu nótunum segir Arndís Anna hafa verið hrifin af ýmsu sem verið er að gera í Noregi. „Þar eru mjög vel ígrunduð verkefni sem miða að því að innflytjendur læri sem fyrst vel á samfélagið, og þannig fá innflytjendur mjög mikinn stuðning og aðstoð til þess að aðlagast vel sínu nýja umhverfi. Hér er oft talað um svona málefni eins og gæluverkefni sem eru látin sitja á hakanum. En ég tel að þetta sé mjög miklvægt að vanrækja ekki því við getum alveg látið þessi mál ganga vel.“