Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) hefur undanfarna mánuði útvegað húsnæði fyrir um 1.600 manns á flótta og hafa flestir þeirra komið frá Úkraínu.
Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins, sem bendir á að undanfarna mánuði hafi fjöldi flóttafólks á Íslandi margfaldast.
„Þetta hefur kallað á skjót viðbrögð við öflun húsnæðis. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fól í mars sl. FSRE að aðstoða félags- og vinnumarkaðsráðuneytið við að útvega húsnæði fyrir flóttafólk. Frá þeim tíma er á vegum ríkisins búið að afla 20 staða fyrir flóttafólkið sem fengið hefur húsnæði í gistiheimilum og í íbúðum. Til staðar eru gistirými fyrir 1.200 manns í svokölluðu fyrsta úrræði, þar sem gert er ráð fyrir að fólk dvelji í að hámarki átta vikur,“ segir ráðuneytið.
Þá kemur fram, að frá 9. september hafi 450 flóttamenn komið til landsins, sem sé mikil aukning frá sumarmánuðum. Aðeins 67 hafa flust úr fyrsta úrræði á sama tíma.
„Þörf var á að grípa strax til aðgerða við að útvega fólkinu gistingu. Í vikunni óskuðu stjórnvöld eftir því að Rauði krossinn myndi opna fjöldahjálparstöð og brást FSRE hratt við. Tókst á einum sólarhring að útbúa skrifstofuhúsnæði á vegum ríkisins í Borgartúni með þeim hætti að unnt að væri að taka á móti fólki til skammtímadvalar. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi fjölda aðila og stóðst húsnæðið úttekt eftirlitsaðila sl. miðvikudag,“ segir á vef fjármálaráðuneytisins.
FSRE leitar áfram að húsnæði sem hentar sem fyrsta úrræði fyrir flóttafólk. Nánari upplýsingar má sjá í auglýsingu á vef stofnunarinnar.