„Við fórum að dæla úr honum um sexleytið í gær og hann var kominn upp um miðnætti,“ segir Samúel Sigurðsson, „altmulig“-maður á Reyðarfirði, í samtali við mbl.is en Samúel er Köfunarþjónustunni ehf. innan handar við björgun fóðurprammans Munins sem sökk í firðinum í byrjun árs í fyrra.
„Þetta hefur gengið ótrúlega vel, frábær mannskapur í þessu,“ segir Samúel og útskýrir að síðasta vika hafi farið í að dæla fóðri úr prammanum til að létta hann. Þá hafi sjó verið dælt úr kjölfestutönkum prammans og lofti inn á móti „og svo bara horfðum við á hann síga upp, það var ótrúlega skrýtið að sjá þetta koma upp úr sjónum eftir meira en eitt og hálft ár,“ segir Samúel.
Framkvæmdum við að ná prammanum upp var að sögn Samúels frestað þar sem fiskur var í kvíum við Gripalda og lítil olía í prammanum, eini vélbúnaður um borð ein lítil ljósavél og var olía fjarlægð úr henni á sínum tíma.
Greinir Samúel svo frá því að krani hafi komið frá Noregi og verið fluttur með skipi að prammanum sem í framhaldinu var dreginn að gömlu kaupskipahöfninni í Reyðarfirði þar sem hann var lagður á botninn að nýju þar til framkvæmdir hófust við að koma honum upp á yfirborðið. Dýptin þar er þó ekki meiri en svo að pramminn stóð vel upp úr sjónum.
Nú er hann hins vegar kominn upp á yfirborðið eftir dælinguna í gær og bundinn við bryggju svo sem sjá má af þessum myndum sem Samúel tók.