Viðburði vegna tendrunar Friðarsúlunnar í Viðey, sunnudaginn 9. október, hefur verið aflýst vegna veðurs.
Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, að venju samkvæmt hafi verið haldin athöfn við tendrun Friðarsúlunnar á fæðingardegi Bítilsins John Lennons.
„Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður gul viðvörun með norðan hvassviðri eða stormi (15-23 m/s) og vindhviður staðbundið yfir 30 m/s á Faxaflóa. Elding sem sér um ferjuferðir út í Viðey segir vindáttina mjög óhagstæða til siglinga yfir sundið og ferjuferðum því aflýst. Þó veður geti virst ágætt skal öryggi ávallt haft í fyrirrúmi og því er þessi ákvörðun tekin í samráði við þá sem að viðburðinum koma auk Veðurstofu Íslands,“ segir í tilkynningunni.
Þá er bent á, að fylgjast megi með tendruninni í beinu streymi á heimasíðu IMAGINE PEACE TOWER .