Hótaði 19 ára stúlku sem hafði kært vin mannsins

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið verið fundinn sekur í annað skipti í Héraðsdómi Norðurlands eystra eftir að hafa hótað 19 ára stúlku sem var vitni í máli eftir að hafa kært annan mann fyrir kynferðislega áreitni, en mennirnir tveir eru vinir.

Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, en hann sendi konunni skilaboð á samskiptaforritinu Messenger með orðunum: „eitt skal ég segja þér og það er að ég og mínir félag­ar sem eru nú flest­ir búnir að sitja í fang­elsi fyr­ir morð og ýmis­legt ljótt við vit­um hver þú ert og við vit­um líka um hest­ana þína svo þú ætt­ir að hugsa þig aðeins um hvað þú ert að gera gömlum manni.“

Samhliða þessu var maðurinn ákærður og fundinn sekur um brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað þremur lögreglumönnum líkamsmeiðingum og lífláti.

Maðurinn gekkst við því að hafa sent skilaboðin sem ákært er fyrir, en fór fram á sýknu þar sem hann sagði ekki um hótun að ræða. Tjáði hann sig ekki frekar við dóminn við aðalmeðferð málsins. Þetta er í annað skiptið sem málið er tekið fyrir, en það var upphaflega rekið fyrir sama dómstól í janúar á þessu ári, en þá var það dómtekið sem útivistunarmál og dómur kveðinn upp að manninum fjarstöddum. Fór hann í kjölfarið fram á endurupptöku þess og var það samþykkt.

Konan sagðist ekkert þekkja til mannsins sem sendi sér skilaboðin, en að hún hafi orðið mjög hrædd, enda væri hún nýlega verið búin að kæra hinn manninn fyrir kynferðislega áreitni. Sagðist hún hafa upplifað að ætlunin hafi verið að hafa áhrif á framburð hennar.

Í dómi héraðsdóms segir að ljóst þyki að í skilaboðnum felist hótun og sé maðurinn sakfelldur fyrir hana. Þá hafi hann einnig játað sök sem lúti að hótunum gegn lögreglumönnum og er hann jafnframt sakfelldur fyrir það.

Ákærði var árið 2017 dæmd­ur fyr­ir lík­ams­árás í Héraðsdómi Norður­lands og var refs­ing ákveðin fang­elsi í fjóra mánuði, skil­orðsbundið í tvö ár. Litið var til þess við ákvörðun refs­ing­ar­inn­ar, en þó ekki sem ítrekunaráhrif. Þykir refsing núna hæfileg fjórir mánuðir, en þar sem um tvö brot er að ræða og fyrri brot mannsins þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna. Manninum er jafnframt gert að greiða 558 þúsund í málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert