Nýjasta verkefnið á sviði rafrænnar heilbrigðisþjónustu er rafræn samskiptagátt fyrir krabbameinssjúklinga, svokölluð Heilsumeðvera. Gáttin samanstendur af Meðveru í Sögu og meðferðareiningu í Heilsuveru sjúklinganna og er hugsuð til að styðja betur við sjúklinga í krabbameinsmeðferð.
Þróun og uppsetning verkefnisins er á lokastigum. Í nýrri rannsókn var leitað til 79 sjúklinga sem svöruðu reglulega einkennamatslistum á rannsóknartímabilinu auk þess að svara spurningum um aðgengið á samskiptagáttinni.
Á vef Landspítalans kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda hafi verið mjög jákvæður gagnvart verkefninu. Þeim hafi fundist gáttin auðveld í notkun og fræðsluefnið skýrt og skilmerkilegt. Einnig kom fram að einkennamatslistarnir hafi verið hjálplegir, veitt þeim öryggi og myndu þeir hiklaust mæla með gáttinni við aðra sjúklinga.
Hægt er að nota gáttina á þrjá vegu. Leggja má mat á einkenni, þá er þar miðlað fræðsluefni fyrir sjúklinga og loks er hægt að eiga í beinum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Einkennamatið fer fram með spurningalistum sem sjúklingar fá senda í Heilsuveru. Svörin fara beint í gagnabanka sem tengjast viðkomandi sjúklingi og birtast í viðvörunarkerfi hjá heilbrigðisstarfsfólki í þeirra teymi.
Ef sjúklingur skorar hátt á ákveðnu sviði er viðeigandi fræðsluefni beint til hans. Hugmyndin er að fræðsluefnið verði þannig uppfært eftir þörfum eins og upplýsingar um nýjar meðferðir og gagnabankinn stækki því smám saman.
Svör hópsins sem hefur verið að prófa gáttina sýnir einnig að andleg líðan, einkennabyrði bæði líkamleg og sálræn minnkaði marktækt frá fyrri stigum rannsóknanna á gáttinni.
Á vefsvæði Krabbameinsfélagsins kemur fram að búist sé við að Heilsumeðveran fari í loftið í næsta mánuði.