Landsvirkjun og Jarðboranir hf. hafa samið um borun tveggja rannsóknarhola á Þeistareykjum sumarið 2023. Boranirnar eru liður í undirbúningi Landsvirkjunar fyrir stækkun Þeistareykjavirkjunar til að mæta aukinni orkuþörf á Norðausturlandi.
Þeistareykjastöð var gangsett á árunum 2017-2018 og hefur rekstur stöðvarinnar gengið afar vel. Uppsett afl hennar er 90 MW. Kolefnisspor virkjunarinnar er með því lægsta sem þekkist í jarðvarmavirkjunum. Landsvirkjun kannar nú möguleika á að veita koldíoxíði úr borholum á svæðinu aftur ofan í jarðhitageyminn, þaðan sem það á uppruna sinn, að því er Landsvirkjun greinir frá í tilkynningu.
Þá segir, að Landsvirkjun hafi nú hafið að nýju athuganir á möguleikum á stækkun virkjunarinnar og sé borun tveggja rannsóknarhola mikilvægur þáttur.
„Jarðboranir hf. munu leggja til verksins borinn Þór, nýjasta og fullkomnasta bor fyrirtækisins. Stefnt er að því að bora holurnar með rafmagni frá Þeistareykjastöð sem sparar notkun á nokkur hundruð þúsund lítrum af jarðefnaeldsneyti. Borframkvæmdin sjálf er því mikilvægur þáttur í að lækka enn frekar kolefnisspor virkjunarinnar.
Þetta verður í fyrsta sinn sem jarðhitaholur á vegum Landsvirkjunar eru boraðar með rafmagnsbor. Lagðir hafa verið háspennustrengir um Þeistareykjasvæðið til að auðvelda þá vinnu,“ segir í tilkynningu.