Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum í ljósi nýlegra fregna af fjárhagsstöðu Strætó bs. og krefst ráðið þess að fjárframlög til almenningssamgangna verði stórefld strax og að svokallaður U-passi verði innleiddur fyrir nemendur.
Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir nemendur að komast á milli staða á skilvirkan hátt, bæði hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu SHÍ.
„Samantekt ASÍ 1 sýnir að ríkisstjórnin ver níu sinnum meira fé í niðurgreiðslu rafbílakaupa en til reksturs Strætó bs. Þessar ívilnanir vegna rafbílakaupa eru kostnaðarsamasta loftslagsaðgerð stjórnvalda, gagnast helst efnameiri hópum og gengur þvert á þau réttlátu umskipti sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.
Myndi efling almenningssamgangna fela í sér bætt kjör og tækifæri fyrir almenning, einkum fyrir tekjulægri hópa, svo sem ungt fólk og stúdenta sem nota almenningssamgöngur í meiri mæli en tekjuhærri hópar, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.
„Með aðild sinni að samningi um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu hefur ríkið skuldbundið sig til að grípa til aðgerða, auk þess sem ríkisstjórnarsáttmálinn kveður á um að unnið verði að eflingu almenningssamgangna á landsbyggðunum, í samstarfi við sveitarfélögin. Það þarf að standa við loforðin, efla almenningssamgöngur og aðgengi að þeim með auknu fjármagni, bæði innan höfuðborgarsvæðisins og utan þess.“
Til þess að gera það að raunhæfum valkosti, að stúdentar komist á milli staða á skilvirkan hátt, bæði hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfi, þyrfti að innleiða U-passa, að mati SHÍ.
U-passinn er samgöngukort á hagstæðu verði fyrir stúdenta og sækir fyrirmynd til Evrópu.
„Innleiðing U-passa gerir Strætó að aðgengilegri kosti fyrir stúdenta og fjölgar notendum. Slík útfærsla er þegar til skoðunar hjá Háskóla Íslands og hafa viðræður við Strætó átt sér stað, en ljóst er að til þess að U-passinn geti orðið að veruleika þarf pólitískan vilja og fjármagn, bæði frá ríki og sveitarfélögum.“