Björgunarsveitin á Dalvík er viðbúin því að til útkalla komi á morgun og verður með mannskap í húsi, er stormur gengur yfir á norðaustanverðu landinu. Rauð viðvörun verður í gildi á morgun á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi.
Á höfuðborgarsvæðinu verður gul viðvörun sem nær til Suðurlands og að Vestfjörðum. Appelsínugul viðvörun verður annars staðar á landinu.
Haukur Arnar Gunnarsson, formaður björgunarsveitarinnar á Dalvík, kveður alla vera á tánum.
„Það eru allir innviðir hér held ég bara klárir. Það er búið að laga mikið; rafmagnskerfi hjá okkur og fjarskiptaöryggi.
Við, RARIK, Lögregla og Almannavarnir erum öll bara á tánum og bíðum,“ segir Haukur, en margir innviðir á Norðurlandi urðu óveðri að bráð í desember 2019.
Karen Ósk Lárusdóttir, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir björgunarsveitir víða um land tilbúnar.
„Það er viðbúið að það verði viðvera hjá aðgerðastjórnun bara strax frá því í fyrramálið, svo bara verður að spila þetta eftir eyranu eftir þeim útköllum sem koma,“ segir Karen.
Aðspurð segir hún ekki sérstakan viðbúnað hjá björgunarsveitum, enda séu þau viðbúin allan sólarhringinn, alla daga ársins.
„Við erum bara, eins og alltaf, tilbúin ef til þess kemur.“