Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum, segir stefna í „ansi stóran hvell“ á morgun, en spáð er miklu óveðri á norðaustanverðu landinu. Almannavarnir funduðu í morgun með veðurfræðingum, björgunarsveitum og öðrum viðbragðsaðilum.
„Þetta veður virðist ætla að raungerast. Við munum virkja samhæfingarstöðina í fyrramálið, klukkan 11, en það getur alltaf breyst,“ segir Jón í samtali við mbl.is.
Rauð viðvörun tekur gildi í fyrramálið fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi. Á Norðurlandi vestra verður appelsínugul viðvörun allan daginn, en á Norðurlandi eystra og á Austurlandi kemur rauð viðvörun inn í þá appelsínugulu.
Sú rauða tekur gildi klukkan 13 á Norðurlandi eystra, en klukkan 17 á Austurlandi að Glettingi og er í gildi í 7 til 8 klukkustundir á hvorum stað. Annars staðar verður gul viðvörun.
Segir Jón fólk þurfa að vera viðbúið og mælir gegn því að vera á ferðinni.
„Á meðan þetta veður stendur yfir þarf fólk að vera viðbúið og vera ekki á ferðinni. Það er bara þannig.“
Fólk þurfi einnig að huga að eigum sínum.
„Hvort sem það er búfénaður, bátar eða hvaðeina,“ segir Jón.
Nú eða trampólín?
„Ég held nú að fólk sé almennt búið að taka þau inn, eða ég vona það.“